Umhverfismálin týnd og tröllum gefin

Það virðist sem svo á niðurstöðum kannana auk umræðunnar undanfarið að umhverfismálin virðast hafa dottið út af borðinu sem lykilkosningamál. Það þykir mér mjög miður. Það er skiljanlegt að fólk hafi fengið leið á virkjana- og álversumræðum en umhverfismálin snúast um svo ótal margt annað og eins og ég hef bent á í umfjöllun minni um umhverfisstefnur flokkana (ok ég viðurkenni að vera ekki alveg búinn) þá vantar sárlega skýra stefnu í umhverfismálum hjá stjórnarflokkunum. Sem er ekki skrítið því síðustu kjörtímabil hefur lítil sem engin áhersla verið lögð á þennan málaflokk. Það er ekki nógu gott. Umhverfisvæn sjónarmið eiga að vera grundvallaratriði í samfélögum 21. aldar. Sérstaklega svona ríku samfélagi eins og Íslandi þar sem við getum valið um svo marga kosti og höfum það svo gott. Því miður virðist það ekki vera ríkt í íslenskri þjóðarsál að hugsa um þessa hluti. Við erum værukær, of góðu vön og sinnulaus þegar kemur að mikilvægi umhverfismála.

 Annars á maður ekki að taka kannanir sem birtast í fjölmiðlum of alvarlega. Úrtakið er oft afar lítið og ef skoðaðar eru t.d. fylgiskannanirnar á landsvísu þá er ekkert að marka tölur úr hverju kjördæmi því það eru kannski bara 100 manns á bak við þær. Enda sveiflast þær tölur mörg prósent milli kannana.


Stefnuskrár flokkana: Umhverfismálin - skipta þau flokkana máli ? 2. hluti - S og B

Þá held ég áfram að kynna mér og mynda mér skoðun á umhverfisstefnum flokkana byggt á því hvernig þær eru framreiddar á vefsíðum þeirra. 

3. Samfylkingin Umhverfismálastefna Samfylkingarinnar ber nafnið Fagra Ísland og er framreidd í fallegu skjali en einnig á skjali sem er sagt vera ítarlegra þó mér sýnist í fljótu bragði vera lítill munur þar á. 

Samfylkingin vill: -        

 Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu”. Gera rammaáætlun um náttúruvernd. Tryggja fjármagn til rannsókna á náttúrufari. Fresta frekari stóriðjuframkvæmdum þangað til heildarsýn um verðmæti náttúruauðlinda liggur fyrir. Að færa heimild til að veita virkjanaleyfi frá iðnaðarráðherra til Alþingis á meðan. Jafnframt skal líta á náttúruvernd sem eina gerð nýtingar og að nýtingin skuli vera sjálfbær. Við gerð rammaáætlunar verði svæðum skipt í þrennt eftir verndunar og/eða nýtingarstöðlum. Víðernin skulu hljóta sinn sess. Styrkja þarf lagastoð náttúruverndar. àinnskot: Í fljótu bragði er þessi stefna lík þeirri sem VG hefur. Lögð er áhersla á mikilvægi rammaáætlunar og að hlé verði gert á stóriðju þar til hún er tilbúin. Samfylkingin gengur aðeins lengra með hugmyndir sínar um flokkun landsvæða. Það held ég að sé ágætis hugmynd en þá þarf að vera á hreinu alla þætti sem meta skal. Hvort iðnaðarráðherra eigi að missa vald sitt veit ég ekki en mér finnst að umhverfisráðherra ætti að hafa vald einnig um framkvæmdir sem valda umhverfissjöllum. Mjög góður punktur er að það þurfi að styrkja lagastoð náttúruverndar, hún er eins og staðan er núna mjög slæm og óljós.-       

  ”Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða”. Stækka Vatnajökulsþjóðgarð, taka inn Langasjó og Jökulsá á Fjöllum. Stækka friðland Þjórsárverja og tryggja friðun fleiri svæða. à innskot: Það er mjög skýrt hvaða svæði Samfylkingin vill friða sem er gott. Ég er þeim sammála um þessi svæði. En listinn er kannski óþarflega tæmandi og einskorðast við svæði sem hugmynd er um að nýta til virkjana. Hvað með önnur svæði t.d. strandsvæði og hafsvæði ?-        

 ”Gera langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.” Þróa aðferðir til að úthluta takmörkuðum mengunarkvótum til stóriðju og kanna kosti þess að taka upp markað með losunarheimildir fyrirtækja. Minnka notkun mengandi eldsneytis í samgöngum með hagrænum hvötum. Efla vetnis og metangasrannsóknir. Efla fræðu til almennings og efla þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Efla rannsóknir á djúpborun. à Í það heila er Samfylkingin með ágætlega framsýna og umhverfisvæna sýn á loftslagsmálin. Hugmyndirnar um minnkaða losun í samgöngum virðist eiga upp á pallborðið hjá flestum flokkum sem er gott. Samfylkingin tekur stóriðjuna með sem er lykilatriði að mínu mati og sjávarútveginn einnig. Tekur þar dæmi um hugmyndir sem gefast vel. Mikilvægi fræðslu til almennings kemur hér fram líkt og hjá V og D, vonandi verður meira gert í þeim efnum því mikið er um ranghugmyndir.-        

”Auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál”. Lagabreytingar í þá átt að almenningur og félagasamtök hafi lögvarða hagsmuni á sviði umhverfisréttar (Samþykkja Árósarsamninginn). Aukið fjármagn til félagasamtaka á umhverfissviði. Að taka upp ráðgefandi eða bindandi atkvæðagreiðslur um ýmsa kosti á umhverfismálum. àinnskot: Þetta eru áhugaverðar pælingar um lagastöðu almennings sem ég viðurkenni að hafa ekki mikið vit á. En því meira sem almenningur hefur að segja því meiri líkur eru á að almenningur kynni sér hlutina og aukin þekking um umhverfismál leiðir til aukinna aðgerða meðal einstaklinga sem samfélaga þannig að ef það er ekki stjórnsýslulega of vafasamt þá er ég meðfylgjandi aukinni þátttöku almennings við ákvarðanatöku. 

Þetta er boðskapur meginskjalsins en á aukaskjalinu má finna viðbætur um m.a. aukið vægi umhverfismála í skólum, aukna endurvinnslu úrgangs og auknar rannsóknir á því sviði, endurheimt landgæða með landgræðslu og skógrækt, efla fræðslu til fyrirtækja um umhverfisstjórnun og grænt bókhald og fræða almenning um umhverfismerkingar á vörum. 

Umhverfisstefna Samfylkingarinnar er því ágætlega skýr og aðgengileg en einskorðast þó að mestu við nokkra þætti og þá helst hitamálin (nýting auðlinda, virkjanir, þjóðgarðar og loftslagsbreytingar). Þó hugmyndir Samfylkingarinnar í þeim efnum séu mér að mestu að skapi mætti stefnan í heild vera heilsteyptari og mörg málefnin koma ekki fram eða er einungis sinnt líttilega. 

4. Framsóknarflokkurinn 

Það var erfitt að finna umhverfisstefnu Framsóknarflokksins á einum stað á vefsíðu þeirra en hægt er að sjá helstu og nýjustu áherslurnar í skjalinu þar sem ályktanir landsfundsins síðasta eru tíundaðar. Þar stendur meðal annars:

 -” Ályktun um náttúruauðlindir landsins’. Að nýta skuli náttúruauðlindirnar af varúð og virðingu og tryggja öllum landsmönnum arðinn og að Ísland verði sjálfbært í orkunýtingu. Efla skuli þekkingu á náttúruauðlindum og tryggja stöðu auðlinda í þjóðareigu. Stuðla skuli að betri nýtingu auðlinda. Auka skuli fjármagn til grunnrannsókna. Að stofnaður skuli Auðlindasjóður þar sem greiðslur af afnotum auðlinda renni í ríkissjóð. Athuga skuli möguleika í djúpborunum. Stuðla skal að umhverfisvænum orkugjöfum við notkun farartækja. à innskot: Þetta er frekar stutt allt saman og spennandi væri að sjá nákvæmari ályktun. Gott er að sjá orð eins og varúð og virðingu en setning eins og ”Stuðla skuli að betri nýtingu auðlinda” segir manni ekki neitt. Er átt við meiri nýtingu eða skynsamlegri ? Væntanlega skynsamlegri en þetta þarf að orða nákvæmar. Ekkert er minnst á umhverfisvernd hér sem ákveðna auðlind og sakna ég þess. Farartæki með umhverfisvæna orkjugjafa koma hér aftur fram og vissulega hefur Framsóknarflokkurinn stutt brautryðjendastarf þar. Spennandi væri að vita hvernig málin ganga þar eða hvort allt sé búið í bili t.d. með vetnið ?

 -”Ályktun um sjávarútveg”. Þar er meðal annars minnst á að stórefla skuli rannsóknir á lífríki sjávar og að tryggja beri nákvæma nýtingu fiskistofna sem og minnka gróðurhúsalofttegundalosun fiskiflotans. Einnig vilja þeir efla rannsóknir á áhrif veiðarfæra á lífríki hafsins. à innskot: Í fljótu bragði líst mér ágætlega á þetta en allt frekar stutt aftur. 

-”Ályktun um landbúnaðarmál”. Ræktun og nýting landsins gæða sé sjálfbær. Verjast skal búfjársjúkdómum og auka rannsóknir og efla nám í landbúnaði. à Innskot. Gott og vel en hér sakna ég vistvænnar framleiðslu, aðbúnaðar búfénaðar (sérstaklega í lokuðu rými) og beitarstjórnun.

 -”Ályktun um loftslagsmál”. Ekki verður farið fram úr þeim losunarkvóta sem þjóðinni var úthlutaður með Kyoto bókuninni nema að fyrirtæki komi sjálf með losunarkvóta á móti. Draga skal út útblástursmengun bílaflotans um 50% á 10 árum. Að vinna markvisst að því að skipta yfir í vistvænt eldsneyti. Losunarheimildir gangi inn í Auðlindasjóð. Stórauka bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu. à innskot: Þessi viðbótarlosuanrkvóti fyrirtækja er afar vafasamur að mínu mati og leiðinleg aðferð við að réttlæta aukna losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis. Hugmyndirnar um vistvæna orku í bílaflotanum og mikinn samdrátt útblástursmengunar eru metnaðarfullar og er það gott að sjá. Spurning hvort 10 ár er ekki svolítið stuttur tími samt miðað við að bílaflotinn fer hratt vaxandi hérlendis. Auðlindasjóður er áhugaverð hugmynd sem ég þarf að kynna mér betur áður en ég mynda mér skoðun á því. Ef vel er staðið að honum gæti hann gengið upp að vissu marki. Ég hef áður minnst á varnagla við of mikla skógrækt. Binding kolefnis er heldur ekki afsökun fyrir aukinni losun með stóriðju. En vissulega er landgræðsla nauðsynleg þar sem gróður hefur horfið vegna ofbeitar og uppfoks. 

-”Ályktun um mengun hafsins”. Ísland skuli halda uppi öflugum þrýstingi á alþjóðlegum vettvangi til að draga úr geislamengun sjávar og að barist verði gegn mengun þrávirkra efna. Að búsvæði hafsbotnsins verði kortlögð og rannsökuð. à Innskot: Gott. Hér hefur gott starf verið unnið í gegnum tíðina. 

-”Ályktun um náttúruvernd.”. ’Nauðsynlegt er að halda áfram á braut skipulegrar náttúruverndar og taka heildstætt á öllu landinu, með náttúruverndaráætlun. Gerð verði grein fyrir þeim svæðum sem þegar eru vernduð og þau komi inn í mat á verndargildi þeirra svæðasem næst verða tekin fyrir.’ Gerð verði áætlun um verndun og nýtingu allra dýrategunda landsins á grundvelli heildarrannsókna á lífríkinu. Haldið verði áfram að byggja myndarlega upp þjóðgarða og önnur friðlýst svæði, sérstaklega á miðhálendi landsins. Skýrar reglur verði settar um utanvegaakstur og viðurlög. Flýta kortlagningu og söfnun upplýsinga sem til eru um náttúru Íslands. Fara skipulega í greiningu og rannsóknir á vistkerfum, búsvæðum og stofni allra tegunda í flóru og fánu landsins sem skapar nýjan grunn að öllu náttúruverndarstarfi í landinu.Farið verði skipulega yfir náttúruvætti landsins, þau skrásett og verndargildi þeirra metið áfaglegan hátt í samstarfi við heimamenn á hverjum stað.Vatnajökulsþjóðgarður verði að veruleika fyrir lok kjörtímabilsins og nái einnig yfir svæðinnorðan Vatnajökuls. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að Jökulsá á Fjöllum verðifriðuð frá upptökum til sjávar. à Innskot: Þetta er allt gott og blessað en ekki mjög róttækt að mínu mati. Einungis er minnst á Jökulsá á Fjöllum sem hugsanlegt svæði sem á að vernda. Ekki er gefið til kynna að vernda eigi mörg svæði til viðbótar, í mesta lagi byggja upp og styðja þau svæði sem þegar eru vernd. Þetta er of mild umhverfisstefna að mínu mati og ef halda á áfram á sömu braut eins og sagt er þá mun tæplega mikið gerast því umhverfismálin hafa ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá Framsóknarflokknum síðustu misseri. Gott er þó að sjá þá minnast á utanvegaakstur, það er vandamál sem margir gleyma og er mjög alvarlegt. Setningin 'gerð verði áætlun um verndun og nýtingu allra dýrategunda landsins ‘ er frekar fyndin frá sjónarhorni líffræðingsins. Hvað með plöntur og sveppi. Og hvað með jarðmyndanir, landslag og víðerni ?  

Einnig er rætt um í ályktun landþingsins að efla þurfi endurnýtingu sem er gott og síðan er sérstök ályktun um minka- og refaveiðar. Þar er takmarkið að útrýma minkinum. Minkurinn er auðvitað aðskotadýr hér á landi en hefur þó verið hér í nokkurn tíma en hefur fest sig vel í sessi. Vissulega veldur hann usla á t.d. fuglalífi en spurning er hvort alger útrýming sé æskileg þó vissulega megi halda stofninum í skefjum. Minkadráp er litið mjög jákvæðum augum hérlendis og folk óbeint hvatt til að drepa minka. Það tel ég geta leitt til virðingarleysis gagnvart lifandi dýrum því þótt minkurinn sé talinn vera meindýr þá á hann ekki skilið kvalir eða slæma meðferð. Þess vegna er mikilvægt að meindýravarnir séu framkvæmdar á mannúðlegan hátt og einungis af sérstökum aðilum. 

En varðandi umhverfisstefnu Framsóknarflokksins þá er hún ekki sérlega heildstæð og mætti taka hana betur saman undir einn hatt. Þótt dreypt sé á nokkuð mörguma triðum og þótt margar áherslurnar þar séu ágætar og áhugaverðar þá er stefnan að mínu mati frekar dauf og lítt framsækin. Ég sakna þátta eins og sjálfbær þróun, líffræðilegur fjölbreytileiki, vistvæn framleiðsla og aðferðafræði o.fl. Það virðist því vera  sem hagsmunir umhverfisins eigi sér ekki mjög sterka málsvara hjá Framsóknarflokknum. Ég sakna heildbærrar hugmyndastefnu þar sem markmiðin og lausnirnar haldast í hendur og virkilega stefnt er að því að hlúa að nátturu Íslands. 

Jæja nenni ekki meiru í bili en lofa að koma með F og Í síðar. Kannski ekki fyrr en á morgun.


Stefnuskrár flokkana: Umhverfismálin - skipta þau flokkana máli ? 1. hluti: V og D

Kosningaumræðan nálgast suðupunkt. Eins og ég hef bent á áður einkennist umræðan að miklu leyti af frekar ómálefnalegum æsingi. Reynt er að klekkja á andstæðingnum og þegar æsast leikar þá vill oft verða djúpt á skynsemilegum málaflutningi. Á meðan sitja stefnuskrár flokkana að mestu óáreittar og lítið fer fyrir því að  þær séu bornar saman,  kostir og gallar þeirra metnir, að glaðst sé yfir efnisþáttum eða þeir gangrýndir málefnalega.

Hér ætla ég að gera tilraun að málefnalegri úttekt á umhverfismálastefnu flokkana en jafnframt lýsa minni skoðun á einstökum efnisþáttum. Umhverfismálin eru mér afar hugleikin og þrátt fyrir mikla umræðu á síðustu misserum hefur hún verið einsleit og litast af virkjana- og álversmálum en mörg fleiri mál tilheyra þessum málaflokki.

Ég tók þann pól í hæðina að fara einungis inn á vefsíður flokkana og sjá hvað ég finn þar.

1. Vinstri-Grænir

Það kemur engum á óvart að stefna Vinstri-Grænna í umhverfismálum er afar ítarlega útlistuð. Ritið Græn framtíð tekur á afar mörgum þáttum og byggist á ákveðinni hugmyndafræði sem litar helstu áherslur og áætlanir. Sjálfbær þróun er hugmyndafræði sem er talin afar mikilvæg af flestum sem aðhyllast umhverfisverndarsjónarmið. Hugmyndafræði sjálfbærar þróunar felur í sér skýr leiðarljós án þess að vera of stýrandi í hvernig best sé að fylgja slíkum leiðarljósum. Vinstri grænir beita þessum leiðarljósum við að móta sína umhverfisstefnu. Ítarlega er fjallað um bæði markmið og hugsanlegar úrvinnsluleiðir í hverjum kafla ritsins en þeir eru fjölmargir.

Helstu áherslupunktar í ritinu eru (aðeins brotabrot):

- Orkustefna og orkunýting: Aukning á notkun endurnýjanlegra orkugjafa, skynsöm orkunýting og minni orkusóun, samdráttur í útblástri gróðurhúsalofttegunda. Tillit skal taka til náttúruverndar við ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ekki skal veita frekari heimildir til slíkra virkjana fyrr en rammaáætlun um nýtingu og verndun er að fullu tilbúin og henni skal ljúka sem fyrst. Meta skal hagrænt gildi náttúruverndar. Orkuverð skal vera sanngjarnt. Skoða skal aðra möguleika til orkunotkunar svo sem sólarorku, vind- og sjávarfallaorku --> innskot: Rammaáætlunin er afar mikilvæg að mínu mati. Er sammála um að hana verði að klára áður en meira er gert.

-Ferskvatn: Ferskvatnsauðlindir skulu vera sameign landsmanna. Nýting ferskvatns skal vera sjálfbær. Kortleggja þarf ferskvatnsvistkerfi og meta verndargildi ákveðinna vistkerfa.

-Lofstlagsmál: Draga úr losun gróðurhúsalofftegunda um amk 60% næstu 50 árin með því að setja bindandi losunarmörk og útfæra reglur um losunarheimildir. Að setja á fór loftlagsráð. Að skoða möguleika til kolefnisbindingar. Beina atvinnulífi inn á umhverfisvænar brautir og sporna við aukinni mengun í iðnaði. Virkja samfélagið með fræðslu og átökum. --> innskot: loftslagsmálin eru umdeild en Íslendingar hafa alla burði til að taka skynsamlega á þessum málum og minnka útblástur. Þó ekki væri nema fyrir minni loftmengun hérlendis. Hér þarf þó að halda vel á spöðunum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

-Líffræðileg fjölbreytni: Viðhald hennar er einn af hornsteinum sjálfbærar þróunar. Tryggja skal vernd hennar og mikilvægt er að fá yfirlit yfir fjölbreytni lífvera með rannsóknum. Að móta stefnu um innfluttar tegundir. Að gera landsáætlun um verndun vistgerða og að tryggja þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. -->innskot: amen og hallelúja. Mjög sammála. Rannsóknir í tengslum við þetta eru í fullum gangi hérlendis. Halda áfram á sömu braut.

-Náttúra og landslag: Meta skal náttúru og landslag sem auðlind sem vernda skal með heilstæðri löggjöf og skipulagi eins og best verður á kosið. auka þarf því vægi náttúruverndar. Ná skal friðlýsingu þeirra 14 svæða sem núverandi náttúruverndaráætlun tekur til. Undirbúa skal frekari friðlýsingar á svæðum sem falla undir friðlýsingarákvæði skv. td. Ramsarsamningi. Landversla verði stórefnd. --> innskot:Vissulega er umdeilt hversu mikið skal friða og landeigendur ekki alltaf sáttir. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka umdeild svæði og skilgreina gildi friðlýsingar. Þó mér persónulega líki vel við sem mestar friðlýsingar þá átta ég mig á því að fara þarf hægt í sakirnar og ræða vandlega við landeigendur og -nýtendur.

-Haf, strönd og hafsbotn: Sjávarútvegsstefna skal vera sjálfbær og taka mið af umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þáttum. Markmiðið er að vernda náttúru og auðlindir hafsins. Þróa þarf vistvænar veiðiaðferðir sem og vistvænt framvinnsluferli sjávarafla. Efla skal rannsóknir á lífríki hafsins og nytjastofnum þess. Ekki skuli heimila hvalveiðar meða sjálfbærni þeirra er umdeild. Að stuðla að notkun vistvænna orkugjafa á skipum. Setja skal skýrar megunarvarnar- og náttúruverndarreglur. --> innskot: hér þarf að stórefla rannsóknir. Líst vel á þróun vistvænni veiðiaðferða. Botnvarpan er afar umdeild ! Hvalveiðar eru bull að mínu mati. við höfum enga þörf fyrir Þær. Sökum pólítískrar spennitreyju sjávarútvegsins er öll umræða um hafverndun mjög viðkvæm. Við þurfum að vera óhrædd við að ræða málin.

- Gróður og jarðvegsvernd: Setja skal nýja löggjöf um gróður- og jarðvegsvernd sem taki einnig tillit til skógræktar og landgræðslu. Gera skal stórátak í endurheimt votlendis. Efla þarf beitarstjórnun og vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs.

-Landnýting (landbúnaður): Miða skal landnýtingu við sjálfbæra umhverfisstefnu og að ekki skuli valda óþarfa umhverfisröskunum. Virkja skal bændur og aðra landnýtendur í mótun slíkrar stefnu. Stuðla skal að vistvænum framleiðsluferlum í landbúnaði. Vernda skal íslenska plöntu- og húsdýrastofna og takmarka notkun innfluttra tegunda. Að varast skuli of mikla samþjöppun í landbúnaði vegna álags á vistkerfið, meðferðar á dýrum, mengunarhættu ofl. Að endurskoða skuli reglur um aðbúnað húsdýra í lokuðum rýmum. --> innskot: aðgengi íslenskra húsdýra er hlutur sem aldrei er ræddur. Eru íslenskir bændur að standa sig ? Hvernig er með svínin og hænurnar og ungnautin. Er aðbúnaður þeirra mannúðlegur ? Þetta þarf að skoða miklu betur og samræma við reglur t.d. í ESB.

-Umhverfismennt: Tryggja skal vægi umhverfismenntar í skólastarfi. Efla skal söfn og aðrar fræðslustofnanir sem sinna náttúru- og umhverfisfræðslu. Auka almenna umfjöllun um umhverfismál og tryggja aðgang að fræðslu. Að fella Staðardagskrá 21 að stjórnsýslu sveitarfélaga. --> innskot: Því miður er umhverfismennt oft mjög ábótavant. Auka þarf þekkingu og áhuga almennings á umhverfismálum. Þau koma öllum við og verða æ mikilvægari.

Í Grænni framtíð er einnig m.a. rætt um kortlagningu og skilgreiningu á verndargildi víðerna, uppbyggingu vistvænnar ferðaþjónustu, mikilvægi vistvænna orkugjafa í samgöngum, aukningu almenningssamganga, bætt aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda, að draga skuli úr allri mengun í íslenskri lögsögu og að friðlýsa skuli íslenskt yfirráðasvæði sem kjarnorkulaust, kanna mengunarhættu á landi, í sjó og ferskvatni, draga skuli úr notkun hættulegra efna í iðnaði og framleiðslu, matvælaframleiðsla verði vistvænni og að neysla og framleiðsla verði eins sjálfbær og mögulegt er.

Hér er einungis stiklað á stóru á öllu sem felst í núverandi umhverfisstefnu Vinstri grænna. Ljóst er að mikið verk hefur verið unnið til að skilgreina stefnuna. Stefnan er að mestu mjög skýr og vel hefur verið hugað að flestum mikilvægum þáttum. Ljóst er að hún er umdeild en það á líka við um hugmyndafræði sjálfbærar þróunar. Ég tel að það sé afar mikilvægt að það sé stjórnmálaflokkur á Íslandi sem taki það að sér að hafa skýra og skilmerkilega stefnu í umhverfismálum þar sem hagsmunir umhverfis og náttúru eru afar sterkir. Augljóslega fara þeir hagsmunir ekki alltaf saman með hagsmunum einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja. Vistvæn og sjálfbær framleiðsla, samgöngur, auðlindanotkun og neysla er oft bæði flókin og dýr og arðsemin er ekki alltaf augljós í aurum talin. En grundvallarsjónarmið sjálfbærrar umhverfisstefnu er að í staðinn fáist heilbrigðara, hreinna samfélag í mun betra jafnvægi og samkomulagi við náttúruna. Það eru án efa margir sem telja það draumóra og vissulega er það erfitt miðað við hversu mikið mennirnir þurfa að taka úr náttúrunni og breyta. En einnig eru margir sem telja að við getum tekið ákvarðanir sem eru ekki alltaf á kostnað umhverfisins og að í framtíðinni verði það okkur til góðs. Í rauninni er það það sem  hugmyndafræði sjálfbærar þróunnar snýst um í fljótu bragði.

Persónulega er ég mjög hrifinn af umhverfisstefnu Vinstri grænna. Hún er skýr, ádeilin og metnaðarfull. Ég er afar ánægður að sjá tekið á þáttum eins og líffræðilegri fjölbreytni og verndun hennar, innflutningi tegunda, aðgengi húsdýra, mengunarvörnum, umhverfismennt og lykilhlutverki náttúrufræðisafna svo fátt eitt sé nefnt.

2. Sjálfstæðisflokkurinn

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum eru ekki mörg á heimasíðu þeirra. Hvort það sé vegna skipulags heimasíðunnar veit ég ekki en eitt er víst að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert margt gott fyrir íslenskt samfélag hafa umhverfismálin alltaf verið að mestu útundan. Kannski er það vegna þess að stefna flokksins í umhverfismálum er lítil eða ómótuð. Hugmyndafræðilega falla t.d. umhverfisverndarsjónarmið og sjálfbær þróun ekki sérstaklega vel að hugmyndafræði frjálshyggju og einstaklingshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir. Engu að síður á svona stór flokkur að vera með metnaðarfulla umhverfisstefnu þó ekki nema til að vera í takt við tímann !

En kíkjum á þessi örfáu stefnumál - hér eru nokkur dæmi:

- "Íslendingar standa framar flestum þjóðum heims í notkun vistvænna orkugjafa með yfir 70% af heildarorkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum. Sjálfstæðismenn vilja stefna að því að hækka þetta hlutfall enn frekar" --> innskot: vissulega og það er gott markmið í sjálfu sér, en hvernig á að gera það ?

-"Sjálfstæðisflokkurinn vill að efnahagslegir hvatar verði notaðir í ríkari mæli til að ýta undir almenna notkun vistvænna ökutækja". --> innskot: líst vel á það, en af hverju bara efnahagslegir hvatar ?
- "Sjálfstæðisflokkurinn vill herða viðurlög við hvers konar umhverfisspjöllum og leggur áherslu á nauðsyn skýrra viðurlagaákvæða í lögum" -->innskot: mjög gott !
-"Merkir áfangar hafa náðst í náttúruvernd, þar sem hæst ber stofnun stærsta þjóðgarðs í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðs. Sjálfstæðismenn vilja halda áfram á sömu braut." --> innskot: vissulega er Vatnajökulsþjóðgarður frábært framtak þó mér fyndist hann hafa mátt vera stærri. En annars er þessi stefna frekar loðin. Halda áfram á sömu braut ? Og gera hvað, ´stofna einn þjóðgarð á 16 ára fresti ?  Hér þarf stefnan að vera skýrari.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill stórefla landgræðslu og skógrækt á þeim sem svæðum sem eiga undir högg að sækja vegna gróður- og jarðvegseyðingar." --> innskot: Gott og vel. Þetta er hlutur sem hefur verið í gangi undanfarið og flestir sammála um. M.ö.o ekkert sérstaklega frumlegt eða róttækt. Þá ber þess að geta að skógrækt er ekki alltaf jákvæð. Ef skógur er ræktaður á vitlausum stað geta íslensk gróðurlendi eins og mólendi orðið undir og það getur verið slæmt fyrir t.d. varp heiðlóu, spóa o.fl fuglategunda. Ég er ekki viss um að neinn flokkur geri sér grein fyrir þessu enda hefur skógrækt mikið verið sveipuð dýrðarljóma hérlendis.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill gera verndar- og nýtingaráætlun þar sem annars vegar eru skilgreind og talin upp þau svæði sem eru nýtileg til orkuframleiðslu án umtalsverðra umhverfisáhrifa og hins vegar svæði sem ber að vernda þar sem orkuvinnsla á þeim hefði neikvæð umhverfisáhrif. --> Innskot: Gott. Þessi áætlun er lykilatriði eins og ég hef sagt áður. Hér er samt ekkert sagt um hvenær stefnan þarf að vera tilbúin eða hvort tilvist hennar (eða skortur á tilvist) hafi einhver áhrif á hugsanlegar framkvæmdir.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill halda fullveldisrétti íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum óskoruðum. Sjálfstæðisflokkuinn telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga." --> innskot: Vissulega á íslenska þjóðin af hafa yfirráðarétt yfir sínum auðlindum. En eitthvað má vera þjóðareign. Það þarf ekki allt að vera einkaeign. Ég er á móti einkavæðingu ferskvatns t.d. sem og tel ég nauðsynlegt að ríkið eigi land sem á að vernda. Það er eina leiðin til að gæta öryggi þess. Þó einstaklingarnir séu oftast skynsamir þarf að tryggja þess að almenningseignir séu varðveittar.
-"Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín í útrás orkufyrirtækjanna. Sjálfstæðismenn vilja skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum til einkaaðila" -->innskot: Ég vil hafa varan á þegar kemur að svona mikili einkavæðingu. Þá er líka svo auðvelt að varpa ábyrgðinni frá sér og hvað verður þá um umhverfið ? Það þarf þá amk að herða reglur um hvernig auðlindirnar eru nýttar og hvaða áhrif nýtingin má hafa á umhverfið.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill efla rannsóknir á sviði umhverfis- og auðlindamála enda eru öflugar rannsóknir forsenda skynsamlegrar og sjálfbærrar nýtingar á auðlindum lands og sjávar" -->innskot: Mjög gott.
Ég ætla að vona að þetta sé ekki umhverfismálastefna Sjálfstæðisflokksins eins og þau vilja kynna hana fyrir almenningi. Þetta er allt of lítið ! Hvar er aðgerðaáætlunin ? Sum stefnumálin eru of óskýr og að mínu mati er einkavæðing ekki besta lausnin þegar kemur að skynsamlegri auðlindanotkun. Amk ekki ef nýtingarreglur eru ekki skýrar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera miklu betur en þetta !!
Jæja, bara tveir flokkar búnir og ég er uppgefinn. Ætla að vista þetta og held svo áfram á eftir með aðra flokka. Vonandi les þetta einhver. Endilega leiðréttið ef ég fer rangt með og ég ítreka það að ég sleppti mörgu, sérstaklega hjá VG.

Kosningaumræðan í hnotskurn

 

- Sjálfstæðisflokkurinn er besti flokkur í heimi. Allir aðrir eru aular.

- Nauhauts. Allir í Sjálfstæðisflokkinum eru plebbar sem hugsa bara um sjálfan sig.

- Betra en helv.. vinstrimenn sem kunna ekki að fara með peninga

- Sjálfstæðismenn eru hrokagikkir sem hata konur

- Vinstrimenn eru kommar sem sitja á kaffihúsum, hekla sjöl og éta söl og eru úr takti við raunveruleikann

- Burt með helv.. íhaldið

- Ef kommadjöflarnir komast í stjórn fer allt til fjandans !!

- Ú á þig

- Ull á þig

- Hey Framsókn er með allt niðrum sig. Gerum grín að þeim !

- Jei jibbí !!!

- En þú ert samt afturhaldsseggur !

- Og þú plebbi sem hatar öryrkja !

- Ú á þig

- Ull á þig

Einhvern veginn svona er stemmingin í kosningaumræðunni þessa daganna. Afar málefnalegt að vanda :)

Í hvaða liði ert þú ?


Sagan um moonstykkið

Moonstykki er ákveðin gerð af sætabrauði sem fyrirfinnst í mörgum bakaríum hérlendis. Það er afar bragðgott og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og fleirum. Í gamla daga (lesist: fyrir ca 7 árum) voru moonstykkin yfirleitt vel stór, sumsstaðar á við snúð að stærð, en amk helmingi stærra í sniðum en t.d. gamaldags kanilsnúður (þessi harði) eða sérbakaða vínarbrauðið. Verðið á slíku moonstykki var um 100 kr, mismikið eftir bakaríum. Í dag færðu ekki moonstykki né neitt annað vínarbrauðskyns undir 150 kr og sums staðar er verðið komið hátt í (eða jafnvel yfir) 200 kr. Ekki nóg með það !! Samhliða róttækri verðhækkun hefur stærð moonstykkisins farið hratt minnkandi, bæði að þykkt, þvermáli o.s.f.v. Er það í mörgum bakaríum í dag ekki stærra en rúnstykki og mun þynnra. Það sama á við um mörg önnur bakkelsi þar á meðal hinn klassíska snúð, vínarbrauð, kleinuhringi, tebollur, marsipanstykki sem og ósæt fyrirbæri eins og pizzasnúða, ostaslaufur og jafnvel rúnstykki. Semsagt verðið eykst en skammturinn minnkar. Er þetta eðlileg þróun ? Það sér hver heilvita maður að hér tapar einungis einn og það er viðskiptavinurinn.

Það kemur því ekki á óvart að bakaríin bætast í hóp þeirra fjölmörgu matsölufyrirtækja sem ekki hafa staðið sig við verðlækkanir í kjölfar virðisaukaskattslækkunarinnar (langt orð !). Sérstaklega kemur mér ekki á óvart að sjá þar nefnt Cafe Konditori Copenhagen sem er ein sú hin mesta okurbúlla sem sögur fara af og eru þó margar okurbúllur hérlendis. Í þau fáu skipti sem ég fer þangað (því jú vissulega er bakkelsið þar ljúffengt) blöskrar mér svo verðið að ég sýp hveljur og tek andköf eins og versti nirfill. Napóleónshattur á yfir 250 !!! (tek fram að þetta er gisk, endilega leiðréttið mig ef hann reynist ódýrari, efast þó um það).  Þetta er skandall !!


mbl.is Verðlækkun í bakaríum fylgdi ekki lækkun á virðisaukaskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt skref til hægri og tvö til vinstri..

Skoðanakannanirnar tröllríða nú fjölmiðlum þessa dagana. Ný könnum á hverjum degi sýnir fylgi flokkana færast nokkur prósent niður eða nokkur prósent upp í hinum og þessum kjördæmum og það er ómögulegt að vita hvert stefnir. Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn á blússandi siglingu, á morgun er hann að dala. Í gær var Framsókn í vörn, í dag er hún í sókn. Samfylkingin var heillum horfin, svo á hraðri uppleið, svo stendur hún í stað. VG voru með himinhátt fylgi, svo fór það niður, svo upp, svo niður. Maður verður alveg ruglaður á þessu. Og hvað segja svo allar þessar skoðanakannanir ? Þær segja að barátta flokkana er langt frá því að vera búin og að ómögulegt er að spá fyrir því hver úrslit kosninganna verða. Eitt er ljóst. Þetta verða spennandi kosningar. Ríisstjórnin gæti fallið og hún gæti haldið naumlega.

Skoðanakannanir taka mikinn tíma af heildarkosningaumræðunni. Fulltrúar flokkana þurfa að tjá sig um hverja einustu könnun, jafnvel þótt tölurnar gætu verið allt aðrar á næsta degi. Mér finnst full mikill tími fara í að ræða þessar skoðanakannanir. Meiri tími á að fara í málefnin því það eru jú þau sem kosningarnar eiga að snúast um. Stefna flokkana þarf að berast betur í fjölmiðlana.

Það sem væri þó sniðugast væri að nýta þetta skoðanakannanabrjálæði með því að kanna skoðanir fólks á málefnunum, ekki bara flokkunum. Hvað vilja Íslendingar sjá gerast ? Hverju vilja þeir breyta ? Hvað finnst þeim um heilbrigðiskerfið, menntamálin, jafnréttismálin, efnahagsmálin, umhverfismálin ? Hvers vegna er engin könnun um það ?


mbl.is Sjálfstæðismenn og VG bæta við sig mönnum í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknar - Harakiri

Það á ekki af Framsóknarmönnum að ganga. Fréttatími RÚV var einn alls herjar kinnhestur framan í magurt og tekið andlit Framsóknarflokksins. Fyrst fáránlega tímasett tilfærsla Páls Magnússonar í stjórnarformannsstól Landsvirkjunar og svo þessi megaskandall Jónínu. Og ég sem var farinn að vona að Jónína sýndi sínar góðu hliðar og færi að stækka friðlýst svæði svona rétt fyrir kosningar. En í staðinn kemst spillingin upp á yfirborðið. Verst að Sjálfstæðismenn geta aldrei tímasett svona skandala rétt fyrir kosningar. Þeir skreppa bara í fangelsi á miðju kjörtímabili, gerast listrænir bak við lás og slá og mæta svo fílefldir til leiks með fagnandi mannfjöldann á móti sér.

En ef þetta gerir ekki endanlega út af við Framsóknarflokkinn (og þ.a.l. núverandi ríkisstjórn) þá missir maður trú á íslenskri pólítík fyrir fullt og allt.


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært

Það var skelfilegt að fylgjast með því þegar Norðlingaölduveita var á kortunum fyrir nokkrum árum síðan. Sem betur fer var hætt við. Ef eitthvað svæði á hálendinu á skilið friðun þá eru það Þjórsárver. Þar eru einar stærstu gróðurvinjar á miðhálendinu. Líffræðilegur fjölbreytileiki er hár á íslenskan standard vegna fjölskrúðugs plöntulífs. Þar eru afar mikilvæg varplönd fyrir heiðagæsina sem og aðrar fuglategundir auk einstakra rústamyndana af völdum sífrera sem gera landslagið afar sérstakt. Sökum erfiðs aðgengis bíla og gangandi fólks hafa Þjórsárver fengið að vera að miklu leyti óspjölluð. Slíkir staðir verða æ mikilvægari í komandi framtíð þannig að ég segi bara, plís Jónína komdu nú með eitt útspil fyrir kosningar sem hægt er að gleðjast yfir aldrei þessu vant.


mbl.is Vilja að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæri Jón Ásgeir

Ég er að flytja til New York í haust til næstu fimm ára. Mig vantar húsnæði. Viltu kaupa íbúð handa mér ? Upper West Side myndi henta mjög vel. Bestu kveðjur, Snorri.

 PS Ég versla oft í Hagkaup ef það breytir einhverju !!


mbl.is Jón Ásgeir keypti sér íbúð í New York fyrir 10 milljónir dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biluð plata

Það var ótrúlegt að heyra í Siv Friðleifs, heilbrigðisráðherra í fréttunum hér rétt áðan þegar hún var spurð um hvernig á því stæði að ástandið væri svona slæmt á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Fyrst kom formúlerað svar um hvaða skyndilausnir væru á pappírunum. Þegar Sigríður Hagalín fréttakona gerðist svo djörf að samþykkja ekki svarið og krefjast þess að Siv svaraði því sem hún hafði spurt, þá svaraði Siv nákvæmlega sama svarinu og áður, nær orðrétt upptalning. Eins og biluð plata !!

Það er með ólíkindum hvað íslenskir pólítíkusar (sérstaklega ráðherrar) geta aldrei viðurkennt að eitthvað sé í ólagi, að einhverju hafi ekki verið sinnt eins vel og æskilegt væri eða að mistök hafi átt sér stað. Það telst til tíðinda þegar þeir afsaka sig. Alltaf er svarað höstuglega í vörn líkt og það sé mesta firra að eitthvað sé gagnrýnivert. Fyrir mitt leiti er þetta ólíðandi ! Hvernig er hægt að ræða málefnalega um eitthvað ef að öll gagnrýni er hunsuð. En þetta virðist virka hér á landi, því Íslendingar eru fljótir að gleyma. Hvernig væri annars hægt að útskýra það að fyrrverandi þingmaður sem fór í fangelsi fyrir það að misnota aðstöðu sína sem þingmaður og stela hinu og þessu, sé aftur á leið á þing ??


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Snorri Sigurðsson

Höfundur

Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson
Líffræðingur og kennari á leið til New York.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 1272

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband