Blogg dauðans !!

Moggabloggið er svakalegt fyrirbæri sem áhugavert væri að stúdera ef maður væri félags- eða fjölmiðlafræðingur. Það fer vaxandi og vaxandi eins og púkinn á fjósabitanum. Fleiri og fleiri bætast við en einnig verða skrifin rosalegri og rosalegri. Það er svo sem ekki skrítið enda kosningar í nánd og allir að fara á límingunum af æsingi með misgáfulegum pistlum, áróðri, skítkasti, hroka í bland við einstaka málefnalegt innlegg sem yfirleitt leysist upp í einhverja vitleysu. Enginn er saklaus, hvorki feministar né frjálshyggjumenn, umhverfissinnar né virkjanasinnar, ungir sem aldnir, konur sem karlar. Vissulega má hafa gaman af þessu öllu saman en þetta er líka dálítið óhugnanlegt. Vinsælustu bloggararnir sem eru mest lesnir átta sig kannski ekki á því að þeirra skoðanir og innlegg geta haft mikil áhrif á alla umræðu. Enda ekki fáar kjaftasögurnar sem hafa byrjað á moggablogginu og vaxa ásmegin þar til allt fer til fjandans. Ef þetta væri fóstbræðraskets myndi það enda með því að talvan étur bloggarann og hann gengur um eins og uppvakningur með tölvuskjá í stað höfuðs og étur annað fólk. Blogg dauðans !!!

Þannig að það er eins gott að passa sig !


Plís stopp !

Ef Siv og Samúel munu skjótast hér fram og til baka á blog.is síðunni fram að kosningum þá ærist ég. En þetta er án efa bara byrjunin á auglýsingaflóði allra auglýsingaflóða.


Skuggalegar staðreyndir

Þetta eru skuggaleg tíðindi en vekja ekki undrun. Það sem er jafnvel enn skuggalegra er að lesa bloggfærslur og athugasemdir þeirra sem ekki bara efast þær rannsóknir sem liggja að baki niðurstöðum þessarar loftslagsskýrslu (sem og annarra) heldur telja þær hina mestu vitleysu og halda því fram að mengun af völdum mannsins hafi engin áhrif á magn CO2 í andrúmsloftinu.

Ég get ekki skilið hvernig hægt er að halda slíku fram. En vissulega eru þrýstingsöfl þarna úti sem leggja sig fram við að gera lítið úr þessum niðurstöðum, hrekja rannsóknir visindamanna og tala um heimsendaspár og svartsýnisraus. Og hvers vegna ? Jú því að sjálfsögðu búa hagsmunir að baki. Hvaða hagsmunir ? Þeirra sem menga mest. Það eru miklir hagsmunir, því er ekki hægt að neita. Milljarðar í aurum talið. En hvernig geta hagsmunir iðnaðarins vegið meira en hagsmunir alls mannkyns auk ótal fleiri dýra- og plöntutegunda á Jörðinni sem eiga það á hættu að verða fyrir miklum skakkaföllum ?

Þeir sem vilja ekki trúa því að útblástur frá samgöngum og iðnaði valdi auknu magni CO2 í andrúmsloftinu benda á að á árum áður hafi magn CO2 verið álíka hátt ef ekki hærra og benda á eldgos og aðrar náttúruhamfarir sem sökudólginn. Það er í sjálfu sér rétt en það hrekur ekki þá staðreynd að aukið CO2 magn í dag sé af völdum mannsins.

- Hækkun CO2 magns hefur líklega aldrei verið eins hröð eins og síðustu 100 árin.

- Engin stór eldsumbrot, árekstrar loftsteins eða aðrar hamfarir sem geta valdið mikilli losun gróðurhúsalofttegunda hafa átt sér stað nýlega sem eru hliðstæðar við þær sem eru taldar hafa valdið mikilli hækkun CO2 á forsögulegum tímum

- Ef fyrst og fremst eldgos og aðrar hamfarir geta valdið álíka mikilli CO2 hækkun hvað segir það þá okkur um áhrif mannsins - það eru hamfarir á sinn hátt einnig.

Áhrif hitastigshækkunar hafa verið tínd til, hver öðru skelfilegri. Veðrabreytingar, hækkun sjávarmáls, þurrkar í sumum heimshlutum, flóð í öðrum. Við sjáum dæmi um þessar breytingar nú þegar og dæmin verða tíðari og svakalegri með hverju árinu sem líður. Það er ljóst að eitthvað er um að vera og ef það er ekki af mannavöldum amk að hluta til, hver er þá orsökin ?

Það vill síðan gleymast í umræðunni um umhverfismál öll þau vandamál sem má beint og óbeint rekja til athafna mannsins sem hafa kannski ekki svo mikil áhrif á okkur sjálf en gríðarlegar afleiðingar fyrir aðrar lífverur - eyðing búsvæða, ofveiðar, flutningur tegunda milli heimsálfa. Þessir þættir (að ógleymdri allri mengun) hafa valdið gríðarlegum röskunum á margvíslegum vistkerfum víða um heim og leitt til útdauða fjölmargra tegunda. Er okkur alveg sama ? Er allt réttlætanlegt þegar það er okkur í hag ? Fær náttúran aldrei að njóta vafans ?

Hér á Íslandi eru vandamálin hvorki mjög alvarleg né mörg þegar kemur að umhverfismálum og við getum hrósað happi yfir því. Við höfum hreint vatn, hreinan sjó, nægjanlegt landrými og mikið af óspjallaðri náttúru. En það þýðir ekki að við getum hunsað það sem er að gerast annars staðar því það sem við gerum hér hefur beint eða óbeint áhrif á stöðuna á heimsvísu, hversu lítið sem það er. Það þýðir heldur ekki að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af stöðu mála hérlendis. Þvert á móti ættum við að halda í umhverfisvæna og hreina ímynd eins vel og við getum, í því eru fólgnir hagsmunir framtíðarinnar, ekki bara fyrir okkur heldur allt mannkynið.

 Og ef þetta var ekki pólítískur pistill þá veit ég ekki hvað !! Hahaha. Stundum er gott að láta allt flakka sem manni langar að segja.


mbl.is Góð og slæm gróðurhúsaáhrif í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingvallavatn - líffræðilegt undur

Blogg nr. 2 í dag - maður byrjar með trompi.

En ég get ekki á mér setið að bregðast við þessari frétt. Það er frábært framtak að vakta eigi lífríki Þingvallavatns. Það vita það kannski ekki margir en vistkerfi Þingvallavatns er með merkilegri ferskvatnsvistkerfum, ekki bara hérlendis heldur á heimsvísu. Ungur aldur vatnsins, sérstæð jarðfræði svæðisins og einangrun fiskistofna hefur gert það að verkum að afar áhugaverðir þróunaratburðir eru að eiga sér stað í vatninu. Afbrigðamyndun bleikju í vatninu á sér engan líka hvað varðar þessa tegund sem er algengur ferskvatnsfiskur á norðlægum slóðum. Hvorki meira en minna en fjögur ólík afbrigði af bleikju finnast í vatninu og er mikill munur á þeim hvað varðar útlit, fæðuval, búsvæðaval og atferli. Engu að síður er enn talið að ekki sé um ólíkar tegundir að ræða en ljóst að tegundamyndunarferlið er langt komið og einhvern tímann í framtíðinni mun reynast ómögulegt fyrir afbrigðin að æxlast hvort við annað og þá verða 4 tegundir af bleikju í vatninu sem munu að öllum líkindum teljast nýjar tegundir á heimsvísu. Það er afar merkilegt því lítið er um einlendar tegundir á Íslandi (þ.e.a.s. tegundir sem finnast hvergi annars staðar) hvorki meðal plantna né dýra. Þá hafa einnig fundist tvö ólík afbrigði hornsíla sem sýna töluverðan útlits- og lífsháttamun. Það er stærð og einangrun vatnsins sem hefur gert þessa þróun mögulega ásamt fjölbreytilegu framboði ólíkra búsvæða og fæðu.

Þessi vitneskja um vistfræði vatnsins og þróun einstakra fiskistofna er fengin eftir áralangra rannsóknarvinnu sem á sér fáar hliðstæður hérlendis nema rannsóknir í Mývatni og Laxá þar sem ferskvatnsrannsóknir eru veigamestar hérlendis. Líffræðingar sem aðrir vísindamenn hafa tekið saman afar skýra og ítarlega mynd af þeim ferlum sem mótað hafa lífríki Þingvallavatns. Ég hef gerst svo heppinn að hafa fengið sumar þessar rannsóknir beint í æð því foreldrar mínir hafa báðir komið að rannsóknum á bleikjunni sem og margir vinir og kollegar. Ég man hversu gaman mér fannst sem krakka að fara á bát út á vatnið til að sækja murtu í net og/eða fylgjast með pabba kafa í Ólafsdrætti þegar atferli kuðungableikjunnar við æxlun var til athugunar. Það er mér því mikið kappsmál að lífríki Þingvallavatns verði ekki einungis vaktað heldur varðveitt til ókomins tíma og að reynt verði að raska því eins lítið og hægt er.


mbl.is Samstarf um vöktun Þingvallavatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Airwaves 2007

Það er mikil synd að sjá fram á það að missa af Airwaves í haust. Hef farið síðustu 2 skipti og haft mikið gaman af. En þegar maður flytur úr landi þá missir maður af skemmtilegum viðburðum. Er ennþá að jafna mig yfir því að hafa misst af The Shins á Airwaves 2004 þegar ég bjó í Bretlandi. en ég get nú ekki kvartað því að á fáum stöðum er eins mikið tónleikaframboð og í New York en þangað flyt ég einmitt í ágúst og get ekki beðið.

Ég á góðar minningar frá þeim Airwaves hátíðum sem ég hef sótt. Margir frábærir tónleikar og skemmtilegar kvöldstundir. Ég var reyndar veikur fyrri hluta 2005 hátíðarinnar og var það mikið svekkelsi en ég missti þó ekki af frábærum tónleikum Architecture in Helsinki og Ratatat að ógleymdum Gus Gus.

Ég gat mætt á öll kvöldin á síðustu hátíð og þar stóðu tónleikar með Metric, Love is All, The Go! Team og Jens Lekman upp úr en ég lagði ekki í að fara á Gaukinn og sjá Wolf Parade því ég vissi að kösin myndi vera yfirþyrmandi.

Í sumar fer ég svo á Hróarskeldu í fyrsta skipti, ótrúlegt en satt, og gæti ég ekki verið spenntari. Ég hlakka sérstaklega til að sjá The Arcade Fire og bíð spenntur eftir að fleiri nöfn bætist á listann. Það er talað um Wilco, það væri magnað ef sá orðrómur er á rökum reistur.


mbl.is Bloc Party á Iceland Airwaves 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð úrslit

Er ekki tilvalið að byrja bloggið með því að gleðjast yfir úrslitum þessa mikla hitamáls í Hafnarfirði. Þetta voru ótrúlega spennandi kosningar og frábært að hræðsluáróðurinn frá ALCAN dugði ekki til. Ég hef enga trú á því að álverið leggi upp laupana, amk ekki strax. Hvað sem verður um álverið er ljóst að stóriðja inni í þéttbýli er ekki bara tímaskekkja heldur tímasprengja. Gott að naumur meirihluti Hafnfirðinga áttaði sig á því.


mbl.is Mikilvægur áfangi í náttúruverndarbaráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóðst ekki mátið

Jæja þá er maður genginn til liðs við vinsælasta blogg landsins. Mér líður svolítið eins og ég hafi gengið út af kaffihúsi án þess að borga !

En maður er jú einu sinni mannlegur og hefur gaman af athygli. Dæmi mig hver sem vill.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Um bloggið

Snorri Sigurðsson

Höfundur

Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson
Líffræðingur og kennari á leið til New York.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 1425

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband