Stefnuskrár flokkana: Umhverfismálin - skipta þau flokkana máli ? 1. hluti: V og D

Kosningaumræðan nálgast suðupunkt. Eins og ég hef bent á áður einkennist umræðan að miklu leyti af frekar ómálefnalegum æsingi. Reynt er að klekkja á andstæðingnum og þegar æsast leikar þá vill oft verða djúpt á skynsemilegum málaflutningi. Á meðan sitja stefnuskrár flokkana að mestu óáreittar og lítið fer fyrir því að  þær séu bornar saman,  kostir og gallar þeirra metnir, að glaðst sé yfir efnisþáttum eða þeir gangrýndir málefnalega.

Hér ætla ég að gera tilraun að málefnalegri úttekt á umhverfismálastefnu flokkana en jafnframt lýsa minni skoðun á einstökum efnisþáttum. Umhverfismálin eru mér afar hugleikin og þrátt fyrir mikla umræðu á síðustu misserum hefur hún verið einsleit og litast af virkjana- og álversmálum en mörg fleiri mál tilheyra þessum málaflokki.

Ég tók þann pól í hæðina að fara einungis inn á vefsíður flokkana og sjá hvað ég finn þar.

1. Vinstri-Grænir

Það kemur engum á óvart að stefna Vinstri-Grænna í umhverfismálum er afar ítarlega útlistuð. Ritið Græn framtíð tekur á afar mörgum þáttum og byggist á ákveðinni hugmyndafræði sem litar helstu áherslur og áætlanir. Sjálfbær þróun er hugmyndafræði sem er talin afar mikilvæg af flestum sem aðhyllast umhverfisverndarsjónarmið. Hugmyndafræði sjálfbærar þróunar felur í sér skýr leiðarljós án þess að vera of stýrandi í hvernig best sé að fylgja slíkum leiðarljósum. Vinstri grænir beita þessum leiðarljósum við að móta sína umhverfisstefnu. Ítarlega er fjallað um bæði markmið og hugsanlegar úrvinnsluleiðir í hverjum kafla ritsins en þeir eru fjölmargir.

Helstu áherslupunktar í ritinu eru (aðeins brotabrot):

- Orkustefna og orkunýting: Aukning á notkun endurnýjanlegra orkugjafa, skynsöm orkunýting og minni orkusóun, samdráttur í útblástri gróðurhúsalofttegunda. Tillit skal taka til náttúruverndar við ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ekki skal veita frekari heimildir til slíkra virkjana fyrr en rammaáætlun um nýtingu og verndun er að fullu tilbúin og henni skal ljúka sem fyrst. Meta skal hagrænt gildi náttúruverndar. Orkuverð skal vera sanngjarnt. Skoða skal aðra möguleika til orkunotkunar svo sem sólarorku, vind- og sjávarfallaorku --> innskot: Rammaáætlunin er afar mikilvæg að mínu mati. Er sammála um að hana verði að klára áður en meira er gert.

-Ferskvatn: Ferskvatnsauðlindir skulu vera sameign landsmanna. Nýting ferskvatns skal vera sjálfbær. Kortleggja þarf ferskvatnsvistkerfi og meta verndargildi ákveðinna vistkerfa.

-Lofstlagsmál: Draga úr losun gróðurhúsalofftegunda um amk 60% næstu 50 árin með því að setja bindandi losunarmörk og útfæra reglur um losunarheimildir. Að setja á fór loftlagsráð. Að skoða möguleika til kolefnisbindingar. Beina atvinnulífi inn á umhverfisvænar brautir og sporna við aukinni mengun í iðnaði. Virkja samfélagið með fræðslu og átökum. --> innskot: loftslagsmálin eru umdeild en Íslendingar hafa alla burði til að taka skynsamlega á þessum málum og minnka útblástur. Þó ekki væri nema fyrir minni loftmengun hérlendis. Hér þarf þó að halda vel á spöðunum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

-Líffræðileg fjölbreytni: Viðhald hennar er einn af hornsteinum sjálfbærar þróunar. Tryggja skal vernd hennar og mikilvægt er að fá yfirlit yfir fjölbreytni lífvera með rannsóknum. Að móta stefnu um innfluttar tegundir. Að gera landsáætlun um verndun vistgerða og að tryggja þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. -->innskot: amen og hallelúja. Mjög sammála. Rannsóknir í tengslum við þetta eru í fullum gangi hérlendis. Halda áfram á sömu braut.

-Náttúra og landslag: Meta skal náttúru og landslag sem auðlind sem vernda skal með heilstæðri löggjöf og skipulagi eins og best verður á kosið. auka þarf því vægi náttúruverndar. Ná skal friðlýsingu þeirra 14 svæða sem núverandi náttúruverndaráætlun tekur til. Undirbúa skal frekari friðlýsingar á svæðum sem falla undir friðlýsingarákvæði skv. td. Ramsarsamningi. Landversla verði stórefnd. --> innskot:Vissulega er umdeilt hversu mikið skal friða og landeigendur ekki alltaf sáttir. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka umdeild svæði og skilgreina gildi friðlýsingar. Þó mér persónulega líki vel við sem mestar friðlýsingar þá átta ég mig á því að fara þarf hægt í sakirnar og ræða vandlega við landeigendur og -nýtendur.

-Haf, strönd og hafsbotn: Sjávarútvegsstefna skal vera sjálfbær og taka mið af umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þáttum. Markmiðið er að vernda náttúru og auðlindir hafsins. Þróa þarf vistvænar veiðiaðferðir sem og vistvænt framvinnsluferli sjávarafla. Efla skal rannsóknir á lífríki hafsins og nytjastofnum þess. Ekki skuli heimila hvalveiðar meða sjálfbærni þeirra er umdeild. Að stuðla að notkun vistvænna orkugjafa á skipum. Setja skal skýrar megunarvarnar- og náttúruverndarreglur. --> innskot: hér þarf að stórefla rannsóknir. Líst vel á þróun vistvænni veiðiaðferða. Botnvarpan er afar umdeild ! Hvalveiðar eru bull að mínu mati. við höfum enga þörf fyrir Þær. Sökum pólítískrar spennitreyju sjávarútvegsins er öll umræða um hafverndun mjög viðkvæm. Við þurfum að vera óhrædd við að ræða málin.

- Gróður og jarðvegsvernd: Setja skal nýja löggjöf um gróður- og jarðvegsvernd sem taki einnig tillit til skógræktar og landgræðslu. Gera skal stórátak í endurheimt votlendis. Efla þarf beitarstjórnun og vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs.

-Landnýting (landbúnaður): Miða skal landnýtingu við sjálfbæra umhverfisstefnu og að ekki skuli valda óþarfa umhverfisröskunum. Virkja skal bændur og aðra landnýtendur í mótun slíkrar stefnu. Stuðla skal að vistvænum framleiðsluferlum í landbúnaði. Vernda skal íslenska plöntu- og húsdýrastofna og takmarka notkun innfluttra tegunda. Að varast skuli of mikla samþjöppun í landbúnaði vegna álags á vistkerfið, meðferðar á dýrum, mengunarhættu ofl. Að endurskoða skuli reglur um aðbúnað húsdýra í lokuðum rýmum. --> innskot: aðgengi íslenskra húsdýra er hlutur sem aldrei er ræddur. Eru íslenskir bændur að standa sig ? Hvernig er með svínin og hænurnar og ungnautin. Er aðbúnaður þeirra mannúðlegur ? Þetta þarf að skoða miklu betur og samræma við reglur t.d. í ESB.

-Umhverfismennt: Tryggja skal vægi umhverfismenntar í skólastarfi. Efla skal söfn og aðrar fræðslustofnanir sem sinna náttúru- og umhverfisfræðslu. Auka almenna umfjöllun um umhverfismál og tryggja aðgang að fræðslu. Að fella Staðardagskrá 21 að stjórnsýslu sveitarfélaga. --> innskot: Því miður er umhverfismennt oft mjög ábótavant. Auka þarf þekkingu og áhuga almennings á umhverfismálum. Þau koma öllum við og verða æ mikilvægari.

Í Grænni framtíð er einnig m.a. rætt um kortlagningu og skilgreiningu á verndargildi víðerna, uppbyggingu vistvænnar ferðaþjónustu, mikilvægi vistvænna orkugjafa í samgöngum, aukningu almenningssamganga, bætt aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda, að draga skuli úr allri mengun í íslenskri lögsögu og að friðlýsa skuli íslenskt yfirráðasvæði sem kjarnorkulaust, kanna mengunarhættu á landi, í sjó og ferskvatni, draga skuli úr notkun hættulegra efna í iðnaði og framleiðslu, matvælaframleiðsla verði vistvænni og að neysla og framleiðsla verði eins sjálfbær og mögulegt er.

Hér er einungis stiklað á stóru á öllu sem felst í núverandi umhverfisstefnu Vinstri grænna. Ljóst er að mikið verk hefur verið unnið til að skilgreina stefnuna. Stefnan er að mestu mjög skýr og vel hefur verið hugað að flestum mikilvægum þáttum. Ljóst er að hún er umdeild en það á líka við um hugmyndafræði sjálfbærar þróunar. Ég tel að það sé afar mikilvægt að það sé stjórnmálaflokkur á Íslandi sem taki það að sér að hafa skýra og skilmerkilega stefnu í umhverfismálum þar sem hagsmunir umhverfis og náttúru eru afar sterkir. Augljóslega fara þeir hagsmunir ekki alltaf saman með hagsmunum einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja. Vistvæn og sjálfbær framleiðsla, samgöngur, auðlindanotkun og neysla er oft bæði flókin og dýr og arðsemin er ekki alltaf augljós í aurum talin. En grundvallarsjónarmið sjálfbærrar umhverfisstefnu er að í staðinn fáist heilbrigðara, hreinna samfélag í mun betra jafnvægi og samkomulagi við náttúruna. Það eru án efa margir sem telja það draumóra og vissulega er það erfitt miðað við hversu mikið mennirnir þurfa að taka úr náttúrunni og breyta. En einnig eru margir sem telja að við getum tekið ákvarðanir sem eru ekki alltaf á kostnað umhverfisins og að í framtíðinni verði það okkur til góðs. Í rauninni er það það sem  hugmyndafræði sjálfbærar þróunnar snýst um í fljótu bragði.

Persónulega er ég mjög hrifinn af umhverfisstefnu Vinstri grænna. Hún er skýr, ádeilin og metnaðarfull. Ég er afar ánægður að sjá tekið á þáttum eins og líffræðilegri fjölbreytni og verndun hennar, innflutningi tegunda, aðgengi húsdýra, mengunarvörnum, umhverfismennt og lykilhlutverki náttúrufræðisafna svo fátt eitt sé nefnt.

2. Sjálfstæðisflokkurinn

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum eru ekki mörg á heimasíðu þeirra. Hvort það sé vegna skipulags heimasíðunnar veit ég ekki en eitt er víst að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert margt gott fyrir íslenskt samfélag hafa umhverfismálin alltaf verið að mestu útundan. Kannski er það vegna þess að stefna flokksins í umhverfismálum er lítil eða ómótuð. Hugmyndafræðilega falla t.d. umhverfisverndarsjónarmið og sjálfbær þróun ekki sérstaklega vel að hugmyndafræði frjálshyggju og einstaklingshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir. Engu að síður á svona stór flokkur að vera með metnaðarfulla umhverfisstefnu þó ekki nema til að vera í takt við tímann !

En kíkjum á þessi örfáu stefnumál - hér eru nokkur dæmi:

- "Íslendingar standa framar flestum þjóðum heims í notkun vistvænna orkugjafa með yfir 70% af heildarorkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum. Sjálfstæðismenn vilja stefna að því að hækka þetta hlutfall enn frekar" --> innskot: vissulega og það er gott markmið í sjálfu sér, en hvernig á að gera það ?

-"Sjálfstæðisflokkurinn vill að efnahagslegir hvatar verði notaðir í ríkari mæli til að ýta undir almenna notkun vistvænna ökutækja". --> innskot: líst vel á það, en af hverju bara efnahagslegir hvatar ?
- "Sjálfstæðisflokkurinn vill herða viðurlög við hvers konar umhverfisspjöllum og leggur áherslu á nauðsyn skýrra viðurlagaákvæða í lögum" -->innskot: mjög gott !
-"Merkir áfangar hafa náðst í náttúruvernd, þar sem hæst ber stofnun stærsta þjóðgarðs í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðs. Sjálfstæðismenn vilja halda áfram á sömu braut." --> innskot: vissulega er Vatnajökulsþjóðgarður frábært framtak þó mér fyndist hann hafa mátt vera stærri. En annars er þessi stefna frekar loðin. Halda áfram á sömu braut ? Og gera hvað, ´stofna einn þjóðgarð á 16 ára fresti ?  Hér þarf stefnan að vera skýrari.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill stórefla landgræðslu og skógrækt á þeim sem svæðum sem eiga undir högg að sækja vegna gróður- og jarðvegseyðingar." --> innskot: Gott og vel. Þetta er hlutur sem hefur verið í gangi undanfarið og flestir sammála um. M.ö.o ekkert sérstaklega frumlegt eða róttækt. Þá ber þess að geta að skógrækt er ekki alltaf jákvæð. Ef skógur er ræktaður á vitlausum stað geta íslensk gróðurlendi eins og mólendi orðið undir og það getur verið slæmt fyrir t.d. varp heiðlóu, spóa o.fl fuglategunda. Ég er ekki viss um að neinn flokkur geri sér grein fyrir þessu enda hefur skógrækt mikið verið sveipuð dýrðarljóma hérlendis.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill gera verndar- og nýtingaráætlun þar sem annars vegar eru skilgreind og talin upp þau svæði sem eru nýtileg til orkuframleiðslu án umtalsverðra umhverfisáhrifa og hins vegar svæði sem ber að vernda þar sem orkuvinnsla á þeim hefði neikvæð umhverfisáhrif. --> Innskot: Gott. Þessi áætlun er lykilatriði eins og ég hef sagt áður. Hér er samt ekkert sagt um hvenær stefnan þarf að vera tilbúin eða hvort tilvist hennar (eða skortur á tilvist) hafi einhver áhrif á hugsanlegar framkvæmdir.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill halda fullveldisrétti íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum óskoruðum. Sjálfstæðisflokkuinn telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga." --> innskot: Vissulega á íslenska þjóðin af hafa yfirráðarétt yfir sínum auðlindum. En eitthvað má vera þjóðareign. Það þarf ekki allt að vera einkaeign. Ég er á móti einkavæðingu ferskvatns t.d. sem og tel ég nauðsynlegt að ríkið eigi land sem á að vernda. Það er eina leiðin til að gæta öryggi þess. Þó einstaklingarnir séu oftast skynsamir þarf að tryggja þess að almenningseignir séu varðveittar.
-"Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín í útrás orkufyrirtækjanna. Sjálfstæðismenn vilja skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum til einkaaðila" -->innskot: Ég vil hafa varan á þegar kemur að svona mikili einkavæðingu. Þá er líka svo auðvelt að varpa ábyrgðinni frá sér og hvað verður þá um umhverfið ? Það þarf þá amk að herða reglur um hvernig auðlindirnar eru nýttar og hvaða áhrif nýtingin má hafa á umhverfið.
-"Sjálfstæðisflokkurinn vill efla rannsóknir á sviði umhverfis- og auðlindamála enda eru öflugar rannsóknir forsenda skynsamlegrar og sjálfbærrar nýtingar á auðlindum lands og sjávar" -->innskot: Mjög gott.
Ég ætla að vona að þetta sé ekki umhverfismálastefna Sjálfstæðisflokksins eins og þau vilja kynna hana fyrir almenningi. Þetta er allt of lítið ! Hvar er aðgerðaáætlunin ? Sum stefnumálin eru of óskýr og að mínu mati er einkavæðing ekki besta lausnin þegar kemur að skynsamlegri auðlindanotkun. Amk ekki ef nýtingarreglur eru ekki skýrar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera miklu betur en þetta !!
Jæja, bara tveir flokkar búnir og ég er uppgefinn. Ætla að vista þetta og held svo áfram á eftir með aðra flokka. Vonandi les þetta einhver. Endilega leiðréttið ef ég fer rangt með og ég ítreka það að ég sleppti mörgu, sérstaklega hjá VG.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Snorri Sigurðsson

Höfundur

Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson
Líffræðingur og kennari á leið til New York.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 1301

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband