Skuggalegar staðreyndir

Þetta eru skuggaleg tíðindi en vekja ekki undrun. Það sem er jafnvel enn skuggalegra er að lesa bloggfærslur og athugasemdir þeirra sem ekki bara efast þær rannsóknir sem liggja að baki niðurstöðum þessarar loftslagsskýrslu (sem og annarra) heldur telja þær hina mestu vitleysu og halda því fram að mengun af völdum mannsins hafi engin áhrif á magn CO2 í andrúmsloftinu.

Ég get ekki skilið hvernig hægt er að halda slíku fram. En vissulega eru þrýstingsöfl þarna úti sem leggja sig fram við að gera lítið úr þessum niðurstöðum, hrekja rannsóknir visindamanna og tala um heimsendaspár og svartsýnisraus. Og hvers vegna ? Jú því að sjálfsögðu búa hagsmunir að baki. Hvaða hagsmunir ? Þeirra sem menga mest. Það eru miklir hagsmunir, því er ekki hægt að neita. Milljarðar í aurum talið. En hvernig geta hagsmunir iðnaðarins vegið meira en hagsmunir alls mannkyns auk ótal fleiri dýra- og plöntutegunda á Jörðinni sem eiga það á hættu að verða fyrir miklum skakkaföllum ?

Þeir sem vilja ekki trúa því að útblástur frá samgöngum og iðnaði valdi auknu magni CO2 í andrúmsloftinu benda á að á árum áður hafi magn CO2 verið álíka hátt ef ekki hærra og benda á eldgos og aðrar náttúruhamfarir sem sökudólginn. Það er í sjálfu sér rétt en það hrekur ekki þá staðreynd að aukið CO2 magn í dag sé af völdum mannsins.

- Hækkun CO2 magns hefur líklega aldrei verið eins hröð eins og síðustu 100 árin.

- Engin stór eldsumbrot, árekstrar loftsteins eða aðrar hamfarir sem geta valdið mikilli losun gróðurhúsalofttegunda hafa átt sér stað nýlega sem eru hliðstæðar við þær sem eru taldar hafa valdið mikilli hækkun CO2 á forsögulegum tímum

- Ef fyrst og fremst eldgos og aðrar hamfarir geta valdið álíka mikilli CO2 hækkun hvað segir það þá okkur um áhrif mannsins - það eru hamfarir á sinn hátt einnig.

Áhrif hitastigshækkunar hafa verið tínd til, hver öðru skelfilegri. Veðrabreytingar, hækkun sjávarmáls, þurrkar í sumum heimshlutum, flóð í öðrum. Við sjáum dæmi um þessar breytingar nú þegar og dæmin verða tíðari og svakalegri með hverju árinu sem líður. Það er ljóst að eitthvað er um að vera og ef það er ekki af mannavöldum amk að hluta til, hver er þá orsökin ?

Það vill síðan gleymast í umræðunni um umhverfismál öll þau vandamál sem má beint og óbeint rekja til athafna mannsins sem hafa kannski ekki svo mikil áhrif á okkur sjálf en gríðarlegar afleiðingar fyrir aðrar lífverur - eyðing búsvæða, ofveiðar, flutningur tegunda milli heimsálfa. Þessir þættir (að ógleymdri allri mengun) hafa valdið gríðarlegum röskunum á margvíslegum vistkerfum víða um heim og leitt til útdauða fjölmargra tegunda. Er okkur alveg sama ? Er allt réttlætanlegt þegar það er okkur í hag ? Fær náttúran aldrei að njóta vafans ?

Hér á Íslandi eru vandamálin hvorki mjög alvarleg né mörg þegar kemur að umhverfismálum og við getum hrósað happi yfir því. Við höfum hreint vatn, hreinan sjó, nægjanlegt landrými og mikið af óspjallaðri náttúru. En það þýðir ekki að við getum hunsað það sem er að gerast annars staðar því það sem við gerum hér hefur beint eða óbeint áhrif á stöðuna á heimsvísu, hversu lítið sem það er. Það þýðir heldur ekki að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af stöðu mála hérlendis. Þvert á móti ættum við að halda í umhverfisvæna og hreina ímynd eins vel og við getum, í því eru fólgnir hagsmunir framtíðarinnar, ekki bara fyrir okkur heldur allt mannkynið.

 Og ef þetta var ekki pólítískur pistill þá veit ég ekki hvað !! Hahaha. Stundum er gott að láta allt flakka sem manni langar að segja.


mbl.is Góð og slæm gróðurhúsaáhrif í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Ekki slæmt. Hins vegar verða vísindamenn að vera opnir fyrir ÖLLU sem kann að hafa áhrif á veðurfar, ekki bara mögulegum áhrifum mannsins. Sem líffræðingur þekkir þú þetta viðhorf en grunnur raunvísindanna og sannleiksleitin liggur að veði. Mikilsvert er að stuðla að bættri umgengni í öllum okkar athöfnum og vernda umhverfi okkar, nær og fjær. Stuðla að aukinni sjálfbærni. Umhverfið er í eilífri umbreytingu og sú hugsun að við getum haldið í óbreytt ástand er óraunhæft í besta falli, hrokafullt í hinu versta.

Aukin þekking á áhrifum sólarinnar á veðurfar ætti ein og sér að fá menn til umhugsunar en þar á ofan bætist þekking á áhrifum geimgeislunar á skýjamyndun og fleira. Skýjafar er, eins og þú veist, stór áhrifavaldur á veðurfar. Nefnd þekking er að nokkru á kenningastigi en svo er einnig um SUMT sem lagt er til grundvallar fullyrðinga um áhrif CO2 á veðurfar. Vont er ef pólitísk rétthugsun í vísindaheiminum valdi því að menn bregðist við með röngum hætti og e.t.v. geri illt verra. Hvað sem öllu líður spyr náttúran ekki um leyfi, hún mun áfram valda ísöldum, hlýindaskeiðum og síbreytilegu umhverfi.

Góða ferð vestur um haf,

Ólafur Als, 6.4.2007 kl. 22:26

2 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Takk fyrir svarið. Gaman að fá fyrstu athugasemdina. Ég er þér sammála, þetta er auðvitað miklu flóknara en svo að það sé hægt að horfa eingöngu á áhrif mannsins enda held ég að enginn sé að halda því fram að engir náttúrulegir þættir komi hér við sögu. Það er kannski hraði breytinganna undanfarið sem gefur til kynna að inngrip okkar mannana vegi þungt.  Einnig er ég þér samála að pólítísk rétthugsun sé afar slæm í vísindaheiminum enda er grunnatriði að allar tilgátur séu ekki einungis studdar af rökum heldur að þær séu ekki óháðar gagnrýni. Hins vegar verða vísindamenn að standa við sínar rannsóknir til að hægt sé að taka þær alvarlega og bregðast við þeim. Það getur verið mjög snúið og allt getur verið hverfult. En til að geta tekið ákvarðanir verður að vera hægt að byggja á einhverjum rökstuddum staðreyndum. Það sorglega er að oftar en ekki eru röksemdir vísindamanna frekar hunsaðar en hitt af þeim sem taka ákvarðanirnar.

Snorri Sigurðsson, 6.4.2007 kl. 22:47

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst nú augljóst að þú fylgist lítið með loftslagsumræðunni annari en þessari mainstream umræðu. Alltaf betra að kynna sér hvað er í gangi.

Mæli með að þú lesir pistil Ágústs Bjarnasonar verkfræðings og athugasemdirnar við pistlinum hér og einnig væri fróðlegt í framhaldi af því fyrir þig að skoða  The Great Global Warming Svindle. Nú er ég ekki að halda neinu fram með þessum ábendingum, aðeins að benda þér á vel rökstudd sjónarmið. Örstutt pæling mín um sama málefni er Hér

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2007 kl. 02:16

4 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Já það er kannski rétt að sumu leyti að ég hef ekki fylgst með allri loftslagsumræðunni. Horfði nú áðan á The Great Global Warming Swindle. Áhrifamikil mynd og vel gerð. Afskaplega einhliða auðvitað líkt og flestur boðskapur er varðar loftslagsumræðuna. Það er auðvitað það sem er verst við málefnið. Það gerir það að verkum að maður þarf að ákveða hverju maður á að trúa. Hver er sannleikurinn ? Hann er tæplega svo svart/hvítur. Það getur ekki verið að 'global warming' sé annað hvort heilagur sannleikur eða algert bull. Nei það sem þessi mynd sýnir okkur sem og þau fjölmörgu rök sem styðja tilgátuna um gróðurhúsaáhrifin  er að þetta mál er afskaplega flókið, niðurstöður eru misvísindandi og þess vegna er erfitt að sjá hvernig bregðast skuli við.

Ég var algerlega sammála nokkrum atriðum sem koma fram í myndinni:

- Það er rangt að einblína eingöngu á CO2 sem meginorsök loftslagsbreytinga. Það þarf að skoða alla þætti.

- Áhrif þrýstiaðila og fjölmiðla hafa leiðandi áhrif á alla umræðu. Vissulega hefur umræðan um áhrif loftslagsbreytinga verið færð í katastrófískan stíl og það er ekki gott

- Það er slæmt að vísindamenn séu stimplaðir fyrir skoðanir sínar og niðurstöður rannsókna. Öl viðhorf eiga að koma fram.

En þegar aðalmarkmið heimildarmyndar er að draga allt í efa sem er grundvöllur ákveðinnar kenningar þá er auðvitað öllum brögðum beitt og hefur m.a. verið bent á að sumar rannsóknirnar sem vitnað er í séu gamlar, mjög umdeildar og jafnvel færðar í stílinn til að koma skilaboðunum betur til skila. Einn viðmælandinn í myndinni hefur m.a.s. mótmælt því harðlega hvernig orð hans voru túlkuð í myndinni og er á móti skilaboðum hennar. Sjá umfjöllun um myndina: http://en.wikipedia.org/wiki/The_Great_Global_Warming_Swindle Ég veit að wikipeda er ekki alltaf örugg heimild en þarna var ágætis samantekt.

Síðan snýst þetta allt um traust. Getur það virkilega verið að þeir hundruðir vísindamanna sem hafa stundað afar ítarlegar rannsóknir á þessu sviði (sem er mjög breytt og kemur inn á mörg fræði) hafi rangt fyrir sér ? Eru þeir allir spilltir og undir ofurafli þrýstiafla allt frá pólítískum samtökum til áhrifa samkeppni um fjármagn ? Eru þeir sem komu fram í myndini píslarvottar, þeir einu sem þora að tala ? Ég trúi því alveg að niðurstöður margra þeirra séu sannar en að sama skapi eru niðurstöður sem sýna fram á gróðurhúsaáhrif einnig trúverðugar. Heimildarmyndin er góð sem slík, í henni koma fram margir athyglisverðir punktar, þar er bent réttilega á margar umdeildar hliðar umhverfisverndarhyggju. En hún er einnig afar áhrifamikið og öflugt áróðurstæki, alls ekkert síðra en þau áróðurstæki sem hafa verið notuð til að vekja athygli á gróðurhúsaáhrifum. Samsæriskenningar eru ekki síður vinsælar og hamfarakenningar.

En þetta er vissulega allt saman þörf umræða og þar sem mér fannst mest sláandi við að sjá myndina er að þegar umhverfisvernd er stillt upp á móti velferð og framtíð fátæks fólks í þróunarlöndum þá verður manni ljóst hversu hættulega stefnu öll umræða getur tekið. Vissulega er erfitt að fylgja eftir róttækri umhverfisstefnu í þróunarlöndum enda er ekki víst að hún eigi helst heima þar eða að minnsta kosti ekki sama eðlis. Vandamál þróunarlandanna eru svo gríðarlega víðtæk og flókin að það er ekki til sóma að benda á umhverfisverndarstefnur sem mestu hættuna. Þar er ekki maklega vegið. Sérstaklega ekki í sama vetfangi og gagnrýni á kapítalismann er talin slæm. En ég læt hér staðar numið, saga kapítalismans og þróunarlandanna er önnur umræða.

Snorri Sigurðsson, 7.4.2007 kl. 16:43

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Global Warming er náttúrulega ekkert bull, menn greinir hins vegar á um þátt mannsins í þeirri þróun. Og varðandi svona fræðslumyndir þá eru þær gerðar til sölu, annars væri ekki hægt að gera þær nema með ríkisstyrkjum og ekki einu sinni það myndi endilega tryggja hlutleysi þeirra. Óskarsverðlaunamynd Al Gore, fyrveranda forsetaframbjóðanda í USA, The Inconvinient Truth, er ekkert sérlega vönduð mynd. T.d. er sýnt þegar brotnar úr skriðjökli í sjó fram til að sýna fram á að jökullinn sé að minnka! Akkúrat það myndskeið sýnir okkur ekkert um það. Slíkt gerist einmitt frekar þegar jöklar stækka. Svona vinnubrögð sýna ekkert nema að tilgangurinn helgi meðalið. En ég þarf ekki að taka það fram að jöklar ERU að minnka á jörðinni víðast hvar. Bara að benda á þetta.

Kveðja... Gunni

Þú segir: Getur það virkilega verið að þeir hundruðir vísindamanna sem hafa stundað afar ítarlegar rannsóknir á þessu sviði (sem er mjög breytt og kemur inn á mörg fræði) hafi rangt fyrir sér ? Eru þeir allir spilltir og undir ofurafli þrýstiafla allt frá pólítískum samtökum til áhrifa samkeppni um fjármagn ?

Persónulega er ég ekki þess umkominn að segja hver hefur rétt eða rangt fyrir sér. En athugaðu eitt, að svo virðist vera að einhverskonar réttgudunarárátta virðist hafa gripið um sig í hinum vestræna heimi varðandi varðandi loftslagsmál. Getur ekki verið að vísindamenn sem og almenningur verði fyrir félagslegum þrýstingi um að "hugsa rétt"?

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2007 kl. 18:39

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta átti auðvitað að vera ...einhverskonar "rétthugsunarárátta"

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2007 kl. 18:42

7 identicon

Jafnvel þótt það hefði ekki gert neitt annað, hefur meistaranámið í umhverfisfæðum kennt mér að maður þarf að vera mjög krítískur á allt sem sem fram kemur í umhverfisumræðunni almennt (og loftslagsumræðunni sérstaklega).  Þannig virka jú vísindin, en ekki síður vegna þess að umhverfisumræðan öll er orðin mjög "pólitíseruð" (þ.e. politicized), okkur sem erum í fræðunum á vísindalegum forsendum til angurs og armæðu og gildir þá einu hvort við erum hægrimenn, vinstrimenn,centristar eða "bland-í-pokistar".  Þegar ég leiði hjá mér pólitíkina, virðast þrjú atriði standa eftir:

1.  Þetta er alltsaman ein allsherjar flækja og eykst flækjan samfara meiri upplýsingum, frekar en hitt (nú væri gott að vera með hnúta og flækjubókina).  Þetta á þó eftir að enda einhvern veginn - líklega illa.  Nákvæmlega hvernig veit enginn, en það mun hlýna áfram.  Við þurfum að læra að lifa með því vegna þess að

2.  fikt í flóknu kerfi sem við skiljum ekki mun líklega bara gera illt verra, jafnvel þótt við gætum stöðvað ferlið - sem við getum ekki (a.m.k. ekki til skemmri tíma litið og þá er ég að tala um áratugi).

3.  og síðast en ekki sízt:  Burtséð frá því hvort aukinn koldíoxíðsstyrkur í andrúmslofti er af mannavöldum eða ekki, sjáum við berlega að loftslag fer hlýnandi og sjávarstaða fer hækkandi.  Hvernig ætlum við að aðlagast breyttum aðstæðum meðan við greiðum úr flækjunni og lærum á kerfið?  Það verður ódýrara því fyrr sem við byrjum.

 Samferðafólk mitt í meistaranáminu í umhverfis- og auðlindafræði hafa þurft að þola þennan fyrirlestur lengi.  Það var kominn tími til að ég dreifði honum víðar.

 og áður en ég gleymi því:  Blessaður Snorri.

Ólafur Patrick Ólafsson (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 19:19

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég get kvittað undir allt sem þú segir Ólafur

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2007 kl. 22:21

9 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Sæll og blessaður Óli Patrick, gaman að fá kunnugleg andlit (ef það má orða svo) inn á kommentakerfið. Er hjartanlega sammála þér einnig, sérstaklega í lið 3.  Hvort sem við berum ábyrgð eða ekki verðum við að bregðast við því vandamálunum mun einungis fjölga ef breytingarnar halda áfram á sömu braut og/eða í auknum mæli.

Og Gunnar, jú vissulega eru vísindamenn ekki undanskildir þegar kemur að því að verða fyrir áhrifum af því sem er sagt úti í samfélaginu. Og það mótar án efa viðhorf þeirra til þess viðfangsefnis sem þeir rannsaka. En góður vísindamaður á að geta horft fram hjá slíkum áhrifum, verið óhlutdrægur og tekið öll sjónarhorn inn í myndina. Annars er ekki hægt að taka hann alvarlega. Hann þarf meira að segja stundum að horfa fram hjá eigin skoðunum !

Snorri Sigurðsson, 7.4.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Snorri Sigurðsson

Höfundur

Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson
Líffræðingur og kennari á leið til New York.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband