Þingvallavatn - líffræðilegt undur

Blogg nr. 2 í dag - maður byrjar með trompi.

En ég get ekki á mér setið að bregðast við þessari frétt. Það er frábært framtak að vakta eigi lífríki Þingvallavatns. Það vita það kannski ekki margir en vistkerfi Þingvallavatns er með merkilegri ferskvatnsvistkerfum, ekki bara hérlendis heldur á heimsvísu. Ungur aldur vatnsins, sérstæð jarðfræði svæðisins og einangrun fiskistofna hefur gert það að verkum að afar áhugaverðir þróunaratburðir eru að eiga sér stað í vatninu. Afbrigðamyndun bleikju í vatninu á sér engan líka hvað varðar þessa tegund sem er algengur ferskvatnsfiskur á norðlægum slóðum. Hvorki meira en minna en fjögur ólík afbrigði af bleikju finnast í vatninu og er mikill munur á þeim hvað varðar útlit, fæðuval, búsvæðaval og atferli. Engu að síður er enn talið að ekki sé um ólíkar tegundir að ræða en ljóst að tegundamyndunarferlið er langt komið og einhvern tímann í framtíðinni mun reynast ómögulegt fyrir afbrigðin að æxlast hvort við annað og þá verða 4 tegundir af bleikju í vatninu sem munu að öllum líkindum teljast nýjar tegundir á heimsvísu. Það er afar merkilegt því lítið er um einlendar tegundir á Íslandi (þ.e.a.s. tegundir sem finnast hvergi annars staðar) hvorki meðal plantna né dýra. Þá hafa einnig fundist tvö ólík afbrigði hornsíla sem sýna töluverðan útlits- og lífsháttamun. Það er stærð og einangrun vatnsins sem hefur gert þessa þróun mögulega ásamt fjölbreytilegu framboði ólíkra búsvæða og fæðu.

Þessi vitneskja um vistfræði vatnsins og þróun einstakra fiskistofna er fengin eftir áralangra rannsóknarvinnu sem á sér fáar hliðstæður hérlendis nema rannsóknir í Mývatni og Laxá þar sem ferskvatnsrannsóknir eru veigamestar hérlendis. Líffræðingar sem aðrir vísindamenn hafa tekið saman afar skýra og ítarlega mynd af þeim ferlum sem mótað hafa lífríki Þingvallavatns. Ég hef gerst svo heppinn að hafa fengið sumar þessar rannsóknir beint í æð því foreldrar mínir hafa báðir komið að rannsóknum á bleikjunni sem og margir vinir og kollegar. Ég man hversu gaman mér fannst sem krakka að fara á bát út á vatnið til að sækja murtu í net og/eða fylgjast með pabba kafa í Ólafsdrætti þegar atferli kuðungableikjunnar við æxlun var til athugunar. Það er mér því mikið kappsmál að lífríki Þingvallavatns verði ekki einungis vaktað heldur varðveitt til ókomins tíma og að reynt verði að raska því eins lítið og hægt er.


mbl.is Samstarf um vöktun Þingvallavatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Snorri Sigurðsson

Höfundur

Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson
Líffræðingur og kennari á leið til New York.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband