11.6.2007 | 12:57
Booooooooooooooring !
Viktoría Beckham er sennilega mest óspennandi mannfreskja sem til er. Það er ekkert spennandi eða áhugavert við frú Posh. Hún er ekki aðlaðandi, hún segir aldrei neitt (þó það sé oft verið að vitna í hana en það eru bara umboðsmennirnir á skrifstofunni sem búa það til) og hefur því ekki gefið til kynna að hún sé með persónuleika, hún hefur núll sjarma. En það klikkar ekki að það er amk eitt Exclusive utan á Hello og Ok með henni í hverjum mánuði. Og svo er hún flutt til Hollywood, og orðin blondína. Paris Hilton má þó eiga það að vera ófyrisjáanleg og ágætlega kómískur gangandi farsi. Ég sé Viktoríu Beckham ekki fyrir mér ofþorna í fangelsisklefa því hún þorir ekki að ganga örna sinna (þó ég sé ekki viss um að Posh noti klósett, það þarf bara að skipta um batterí öðru hvoru).
En af hverju er ég að eyða tíma mínum í að röfla um þetta ???
Viktoría vonar að Rómeó verði góður brimari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2007 | 18:28
Bjúrókrasía af verstu sort
Að sækja um Visa í Bandaríkjunum er góð skemmtun....(anda djúpt)...eina sem dugar er að taka Pollýönnu á þetta. Hvernig er hægt að gera svona mikið og fylla út svona mörg eyðublöð bara til þess að sækja um viðtal til að geta sótt um Visa. Þetta er klikk. Svo þarf maður að hafa heimilsfang í USA og ég veit ekki enn hvar ég mun búa (þó það sé reyndar hugsanlega að rætast úr þeim málum). En shit scheise mierde hvað þetta er allt mikið vesen.
Annað í óspurðum fréttum - 4 vikur í Hróarskeldu, rúmir 2 mánuðir í doktorsnám í New York. Ég held að ég þurfi að anda djúpt aftur.........................................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 19:03
Máfamálið
Þetta er svo sannarlega vandamál en eins og Gunnar sagði svo skilmerkilega í fréttinni þá liggur vandinn í þessum ætisskorti og afleiðingin er hegðunarbreyting. Þar sem sílamáfurinn er að miklu leyti tækifærissinni og getur leitað í betri fæðu þá liggur beinast við að fara í borgina þar sem næga fæðu er að hafa.
Sílamáfurinn er farfugl og er því ekki hér á veturna. Þar sem ekki þarf að gefa öndunum á sumrin því þær hafa næga aðra fæðu ætti að hætta brauðgjöfunum alveg amk á meðan svona mikið er af máfnum. Það er þá alltaf hægt að koma á fallegum vetrardegi og gefa öndunum enda þurfa þær mest á því að halda þá þegar kalt er í veðri og minna af annarri fæðu.
Annað sem hægt er að gera er að ganga betur um þeas sinna sorpmálunum betur hvort sem er á víðavangi eða við heimahús. Máfarnir sækja mjög í allar matarleifar og annan úrgang. Ef fólk passar að skilja þær ekki eftir á glámbekk eða henda þeim á jörðina þá finna máfarnir síður fæðu innan borgarmarkana og leita annað. Ein helsta fæðulind sílamáfsins um helgar er t.d. það gríðarlega magn hálfétinna pulsa, hamborgara og hlöllabáta sem liggja á götum miðbæjarins eftir djammnætur. Þá er gósentíð hjá máfunum.
Það er skiljanlegt að fólk tali um útrýmingu enda er sílamáfurinn orðinn hálfgert meindýr þegar fjöldinn er orðinn svona mikill og hefur m.a. slæm áhrif á andarvarpið. Hins vegar er mjög erfitt að eyða máfnum á markvissan hátt. Það má ekki skjóta hann nálægt mannabyggð og þar sem varplendi hans er að miklu leyti í návist mannsins þá er sú aðferð kannski gagnminni en halda mætti. Annað er að varpið er töluvert dreift og á mörgum stöðum hér á Suðvesturhorninu. Varpið á Suðurnesjum er t.a.m. afar stórt. Rætt hefur verið að eitra fyrir máfnum. Það tel ég vera afar slæma hugmynd því að notkun eiturs er ætíð óæskileg því það getur alltaf borist eitthvert annað, í aðrar lífverur, út í umhverfið og jafnvel í menn. Það er áhætta sem við ættum ekki að taka. Enda hefur eiturnotkun að mestu verið hætt þegar svo stór dýr eru drepin hérlendis. Annað er að þótt eitur sé sett í hreiður máfana og ungarnir hugsanlega drepist þar þá er ómögulegt að segja hjar fullorðnu fuglarnir myndu drepast. Þeir gætu drepist hvar sem er og þá lægju dauðir máfar eins og hráviði á ótrúlegustu stöðum. Kettir og hundar gætu komist í hræin og urðið fyrir eitrun auk þess sem því myndi fylgja mikill sóðaskapur.
Nei þetta er stórt vandamál og spurningin er fyrst og fremst: Hversu lengi mun þetta ástand vara ? Hvað mun gerast fyrir sandsílið og aðra mikilvæga fæðu máfsins í sjónum og hvernig getum við komið í veg fyrir að máfurinn sæki svo mjög inn í bæinn ? Svörin eru ekki alltaf þau einföldustu, það þurfum við að hafa í huga.
Það er ekki allt í lagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 01:26
Bland í poka
Jæja þá er ríkisstjórnin komin á hreint. Margt er þar gott að sjá, annað síðra.
Í það heila leysti Samfylkingin vel úr sínum málum tel ég. Auðvitað er snúið fyrir flokk með marga þingmenn sem hefur aldrei verið í ríkisstjórn að skipta á milli sín 6 þingsætum.
Ingibjörg Sólrún neyddist til að taka Utanríkisráðuneytið. Það er ekki óskastaða fyrir hana því þó það sé verðugt embætti er það slæmt fyrir formann síns flokks að vera mikið í útlöndum. En Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei gefið upp Fjármálaráðuneytið, það er fjöreggið þeirra. Eins og hefur sýnt sig þá fórna þeir frekar Forsætisráðuneytinu.
Össur verður áhugaverður iðnaðarráðherra. Vonandi verður stóriðjan ekki efst á blaði. Það yrðu mikil kosningasvik.
Jóhanna er vön í félagsmálum og þau eru henni ofarlega í huga. Þau og tyggingamálin eru snúin og vonandi gengur henni vel að koma á fót öflugri jafnaðarstefnu.
Mér líst mjög vel á Þórunni í Umhverfisráðuneytinu. Þar er á ferðinni eldklár og ákveðin kona sem á án efa eftir að gera mikinn og tímabæran skurk í því ráðuneyti. Vona ég að því vaxi fiskur um hrygg undir hennar stjórn.
Hef lítið að segja um Kristján og Björgvin. Það að Kristján var valinn kom ekki á óvart. Björgvin var ekki eins augljós kostur þó hann eigi fullt erindi inn í ríkisstjórn.
Mikið er skrifað um Ágúst Ólaf og sumir ganga mjög langt í að dæma hans tíma búinn. En því má ekki gleyma að hann er ungur og það kom mjög á óvart þegar hann varð varaformaður flokksins. Þar naut hann góðs af baráttu Ingibjargar og Össurar. Hann á án efa eftir að koma meira við sögu síðar ásamt Katrínu Júl, Gunnari Svavars, Steinunni Valdísi o.fl. Ef einhver þingmaður hefði átt skilið að verða ráðherra má nefna Ástu Ragnheiði sem hefur verið lengi á þingi og verið ötull talsmaður jafnaðarstefnunnar.
Hjá Sjálfstæðisflokknum kom á óvart hve breytingarnar voru litlar. Þorgerður hélt sig í Menntamálaráðuneytinu. Þar hefur hún staðið í ströngu, gert margt gott en einnig margt umdeilt og sumt sem hefur reynst algert klúður svo sem hugmyndir um styttingu framhaldsskólans. Hún er vaxandi í því starfi og hefur vonandi lært af mistökunum. Hún er auðvitað gríðarlega öflugur leiðtogi innan Sjálfstæðisflokksins. Það hefði verið gaman að sjá fleiri konur meðal ráðherra Sjálfstæðisflokksins en við því var svo sem ekki að búast.
Árni Matt er enn fjármálaráðherra. Það á ég erfitt með að skilja enda afskaplega litlaus stjórnmálamaður þar á ferð. En þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið sé það mikilvægasta er það lítið í fréttum og að mörgu leyti lítt umdeilt þannig að það var kannski best að geyma hann þar. Ég hélt þó að Þorgerður eða jafnvel Guðlaugur myndu gera atlögu að því.
Talandi um Guðlaug þá var nokkuð ljóst að hann kæmi í stjórn, en í heilbrigðisráðuneytið átti ég ekki von á að hann færi og er það að mörgu leyti frekar skelfilegt. Einhver einkarekstur í heilbrigðisgeiranum gæti hugsanlega gengið upp en ég ímynda mér að það verði það eina sem hann hafi til málana að leggja og það er ekki töfralausnin eins og staðan er í dag og sé ég ekki fram á að vandamál heilbrigðisgeirans leysist á næstunni undir hans stjórn. Ég hefði viljað sjá Ástu Möller sem heilbrigðisráðherra þótt tilkall hennar til þess stóls hefði alltaf verið veikt. Ásta er sú af þingliði D sem þekkir þennan bransa best, bæði rekstur og starfsemi. En hún er auðvitað umdeild og þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir, stundum með flumbrugangslegum hætti. Ég hef alltaf dálítið gaman af henni og virði hana fyrir að þora að hafa sínar skoðanir þótt þær séu stundum á skjön við sína flokksfélaga. Það eru ekki allir sjálfstæðismenn og -konur sem þora því.
Einar K. fær bæði Sjávarútvegs- og Landbúnaðarstólinn. Það er ærið verkefni og forvitnilegt verður að sjá hvernig hann dílar við bæði sjómenn og bændur. Hann er vís til að leyfa og prófa allan andskotann. Íslensku kýrinni gæti verið fórnað nú eftir að Guðni vinur hennar er farinn frá henni.
Og að lokum Björn Bjarna. Hvernig getur hann ennþá verið dómsmálaráðherra ? Kjósendur hafa sýnt að þeir vilja hann ekki þarna, bæði í prófkjöri og kosningum. En áfram hangir hann inni með sína draumóra um leyniþjónustu og her. Þarna hefði nú frændi hans Bjarni Ben sómað sér betur, eða einhver reyndur þingmaður eins og Arnbjörg Sveins eða jafnvel Birgir Ármanns.
Það er áhugavert að sjá skiptingu ráðherra milli kjördæma. Landsbyggðin fær 4 þótt Árni Matt sé nú hálfgerður plat-Sunnlendingur. Kristján Júl situr tómhentur eftir og Sturla fær reisupassann eins og von var á. Kraginn fær 2 ráðherra og Reykjavík heila 6. Kraginn hefði nú átt skilið 1 í viðbót á kostnað Reykjavíkur. Það má þó reikna með að Bjarni Ben taki við af frænda sínum inna tíðar.
En þetta er komið á hreint. Nú verður spennandi að sjá hvernig stefnumálin koma út eftir samningaviðræðurnar. Ég vona innilega að umhverfismálin fái aukið vægi og að jafnaðarstefnan komi ekki vængbrotin út úr viðræðunum.
Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 13:51
Vonbrigði
Því miður hélt stjórnin. En tæpara gat það ekki verið. Og kaldhæðnast af öllu var að ef Framsókn hefði tekið nokkur atkvæði af Sjálfstæðisflokknum hefði jafnaðarmaðurinn getað skotist til Samfylkingar og stjórnin fallið. Framsóknarflokkurinn lifir enn á landsbyggðinni. Í Reykjavík er hann liðinn undir lok og Siv rétt svo hafði það á lokasprettinum í Kraganum.
Sjálfstæðisflokkurinn er einum of sterkur. Það er vissulega ósanngjarnt að honum sé aldrei refsað fyrir það sem miður fer í stjórnarsamstarfinu. Það liggur við að maður vorkenni Framsókn fyrir það óréttlæti.
Samfylkingin átti ágætis endasprett en hann var þó ekki eins mikill og leit út fyrir í fyrstu.
Vinstri-Grænir stóðu sig ágætlega en ég var pínku vonsvikinn með að þeir hafi ekki fengið meira. Ég er svolítið hræddur um að áróðursmeistarar stjórnarflokkana hafi virkað jafn vel við að draga niður fylgi VG með hræðsluáróðri eins og áróðursmeistarar stjórnarandstöðunnar fóru illa með Framsókn. Harkaleg barátta B og V hafði áhrif á þá báða. En Sjálfstæðisflokkurinn stendur allt af sér eins og venjulega.
Íslandshreyfingin tók kannski e-ð fylgi frá hægrimönnum en það hefur ekki verið mikið. Ég er hræddur um að hún hafi skemmt fyrir VG og hugsanlega gert það að verkum að stjórnin hélt velli. Sérstaklega í Reykjavík þar sem Í fékk hátt í 5% sem gagnaðist ekki neitt. Að mörgu leyti er ég sammála Ómari með það að 5% sé ósanngjarnlega hátt til að ná inn manni. Því stærri sem flokkurinn er því færri atkvæði þarf hann fyrir hvern þingmann sem kemst inn. Það er Sjálfstæðisflokknum í hag.
Uppbótarþingmannakerfið er stórfurðulegt. Ég er ekki hissa að Mörður sé fúll að detta út meðan Steinunn Valdís og Ellert fljúga inn bæði í sínu kjördæmi.
En já nú er þetta bara búið og hvað gerist næst ? Ingibjörg Sólrún vill fara í ríkisstjórn og verða forsætisráðherra og hún á það svo sem alveg skilið. Ég myndi vilja sjá Vinstri-Græna þar inni en ég sé ekki minnihlutastjórn S og V gerast. Það eru draumórar. Sjálfstæðismenn vilja auðvitað halda í Framsókn svo þeir geti ráðið sem mestu og Framsókn situr áfram í súpunni næsta kjörtímabil. Vonandi sér B sóma sinn í að draga sig út úr ríkisstjórn. Þá neyðist D að ræða við annaðhvort S eða V og það gætu orðið áhugaverðar umræður. Það væri nú fyndið ef Ögmundur og Sigurður Kári enduðu saman í stjórnarsamstarfi svo maður taki dæmi um ólík sjónarmið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 20:06
Fellum ríkisstjórnina
Þessar kosningar verða ótrúlega spennandi. Allir verða á nálum. Enginn veit hvað gerist. Ég vona innilega að stjórnarandstaðan nái meirihluta. Samfylkingin er á góðri siglingu og vinstri grænir eiga meira inni, ég trúi ekki öðru. Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað sterkur en skoðanakannanir benda til þess að fylgi hans sé langt í frá að vera stöðugt. Aðalspurningin er hvað verður um Framsókn. Þeir eiga ekki skilin 10% að mínu mati og vonandi fá þeir ekki meira en það.
Umhverfismálin, heilbrigðismálin, málefni aldraðra og öryrkja, jafnréttismálin og menntamálin eiga skilið betri málsvara á Alþingi og meiri sess hjá framkvæmdavaldinu. Þess vegna skiptir máli að ríkisstjórnin falli.
Eurovision verður algjört aukaatriði. Úkraína á örugglega eftir að vinna. Annars held ég með Frakklandi. Eiki átti aldrei sjens en stóð sig vel.
En allir sem vilja ríkisstjórnina burt, kjósið vinstri flokkana !!
Annað kvöld verður kreeeeeeeeeeeísi !!
Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 14:12
Ekki aftur !
Ef þessi könnun segir eitthvað til um úrslit kosninganna þá fallast mér hendur. Hvað sem mönnum finnst um ríkisstjórnina, stjórnarandstöðuna etc. þá er þetta hálfgerður dauðadómur yfir íslenskri pólítík. Allt kjörtímabilið heyrast óánægjuraddir, fólk vill breytingar, Framsóknarflokkurinn virðist vera í dauðateygjunum og svo með sniðugri auglýsingamennsku og hræðsluáróðri af ýmsu tagi (ekkert stopp slagorðið virðist virka því miður og ummæli / neyðarbón Valgerðar um örlög stjórnarstarfsamsins sömuleiðis) þá fær Framsóknarflokkurinn enn aftur byr undir seglin og niðurstaðan verður - ekkert breytist. Same old same old. Ekkert nýtt, ekkert spennandi. Og án efa eftir nokkra mánuði byrja sömu óánægjuraddirnar, fylgið hrynur af Framsókn aftur, svo eftir 3 ár fyrir næstu sveitastjórnarkosningar sleppur Framsókn aftur með skrekkinn og líka í næstu alþingiskosningum með sniðugum auglýsingaáróðri. Þeir mega eiga það, þeir kunna að láta á sér bera !
Ef að Samfylking og VG lenda aftur í stjórnarandstöðu þá vorkenni ég þeim mjög sem og áhugamönnum um íslenska pólítík.
Af hverju gerist aldrei neitt óvænt í íslenskum stjórnmálum ?
Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2007 | 15:52
Augliti til auglitis við örn
Þetta eru slæm tíðindi, sérstaklega eftir undanfarin góð varpár. Það munar um hvert par og 10 pörum minna en venjulega er hálfgert hrun. Vonandi er þetta bara eitt slæmt ár og arnarvarpið nær sér aftur á strik.
Haförninn er tvímælalaust einn tignarlegasti varpfugl Íslands. Að sjá haförn á flugi er glæsileg sjón. Eitt eftirminnilegasta augnablik sem ég hef upplifað var þegar ég sat í 5 m fjarlægð frá arnarhreiðri á Löngufjörum fyrir allmörgum árum. Arnarparið var orðið vant dálítilli umferð fólks við hreiðrið enda mikill hestamannastraumur þar framhjá á sumrin. Þess vegna hafði fengist leyfi um að fara mjög nálægt hreiðrinu og foreldrarnir virtust ekki kippa sér mikið upp við það. Það var ótrúlegt að sitja augliti til auglitis við arnarungann, sem var í senn lufsulegur með restina af ungadúninum hangandi utan á, og tignarlegur með skörp augun og hvassan gogginn.
Illa lítur út með arnarvarp nú í vor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 13:09
Kosningaloforð - ha ég ekki satt !
Það var skondið að sjá viðbrögð Jóns Sigurðssonar við þeirri staðreynd að almenningur ber ekki mikið traust til stjórnmálamanna. "jú það er því flokkarnir koma með svo mikið af kosningaloforðum sem þeir geta ekki staðið við". Hmmm hvaða flokkur er að lofa fríum tannlækningum til barna upp að 18 ára ?
Annars er það pirrandi hvað stefnuskrár flokka eru oft misskildar sem kosningaloforð. Enda keppast stjórnarflokkarnir við að segja hvað stefnumál stjórnarandstæðuflokkana séu dýr og að hagkerfið fari norður og niður. Halló Hafnarfjörður ! Þetta eru stefnumál sem eru ætluð sem grundvallarviðmið og vinnumótunarpunktar, ekki sem endanlegar aðgerðir á fyrsta degi. Ekki einkavæðir Sjálfstæðisflokkurinn allt á einni nóttu ? Nei að sama skapi myndu vinstri flokkarnir ekki beita sér fyrir sínum áhersluatriðum á einu bretti enda afar óskynsamlegt. Þannig að þeir sem óttast hrun hagkerfisins ef vinstri flokkanir komast til valda þurfa allavega að sjá það gerast smátt og smátt en ekki hrun á geimvörpuhraða :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2007 | 11:17
Íslandsvinir
Það er sem betur fer enn smá líf í umhverfisumræðunni. Mæli með að fólk lesi bækling Íslandsvina sem dreift var í hús í gær. Það er djarft framtak sem vonandi minnir fólk á marga gilda punkta varðandi skuggahliðar álframleiðslunnar sem mikið var rætt um í kjölfar Draumalandsins.
Það átta sig t.d. ekki allir á því að náttúruspjöllin sem tengjast íslensku stóriðjunni gerast ekki bara hér. Báxítvinnslan í hitabeltinu er afar umsvifamikil og umhverfisspjöllin þar gríðarleg.
Einn afar athyglisverður punktur í bæklingnum var sú staðreynd að í Sviss var síðasta álverinu lokað 2006. Þar hafa menn væntanlega áttað sig á mikilvægi hreinnar náttúru enda Sviss mikið ferðamannaland þar sem tært og hreint Alpaloftið er lykilþáttur.
Lesið bækling Íslandsvina. Hann er skemmtilega 'in your face' framsettur en innihaldið er líka mjög kröftugt og verðug áminning um í hvað áliðnaðinum felst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Snorri Sigurðsson
Tenglar
Góðir tenglar
Ég
Aðrar síður
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar